144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[15:03]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við höldum áfram umræðu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands. Eins og komið hefur fram er að mörgu að hyggja. Að jafnaði þegar þetta frumvarp er rætt er fyrst og fremst nefnt það sem heyrir undir 1. gr. frumvarpsins, sem snýst um að ráðherra geti kveðið á um aðsetur stofnunar sem undir hann heyrir nema á annan veg sé mælt í lögum.

Ég vil segja það fyrst, svo við stöldrum við þá tilteknu grein, að það liggur náttúrlega fyrir að tilurð þessa máls er boðaður flutningur Fiskistofu og það klúður og vandræðagangur sem það allt saman leiddi af sér. Ráðherrann var rekinn til baka með áformin sem voru partur af einhvers konar byggðastefnu Framsóknarflokksins, sem snýst um skyndiupphlaup, skyndiákvarðanir og SMS-sendingar en ekki heildarsýn. Þarna átti að skella fram einhverju sem mæltist vel fyrir á landsbyggðinni, eins og það sé einn staður á Íslandi, og þar með að vera búinn að kvitta fyrir það að ríkisstjórnin væri að vinna í þágu hinna dreifðu byggða á Íslandi. Þetta var vond hugmynd og þetta var vond framkvæmd og verra er síðan að leggja fram heilt frumvarp til laga til þess að undirbyggja ákvörðun sem í sjálfu sér er búið að draga til baka vegna þess hversu vond hún var.

Það sem mig langar að staldra við í upphafi þessarar umræðu er einmitt það hversu gamaldags hugsun kristallast þarna. Í fyrsta lagi að því er varðar byggðastefnu og byggðasjónarmið og í öðru lagi að því er varðar ríkisstofnanir. Þessi hugsun, bæði hugmyndin um Fiskistofu á sínum tíma og þetta frumvarp, byggir á þeirri gömlu og úreltu hugmyndafræði að stofnanir snúist í raun og veru um fjóra veggi og eitthvert hús og einhvern stað þar sem fólk sé staðsett og vinni vinnuna sína, það byrji klukkan eitthvað, stimpli sig inn og fari svo heim klukkan eitthvað annað og sé þá búið að ljúka vinnudegi sínum. Sú hugsun og nálgun að því er varðar stofnanir í þjónustu ríkisins er úrelt. Þeirri nálgun vex ásmegin með hverju árinu sem líður að staðsetning starfsmanna verði aukaatriði.

Við sjáum stórar og öflugar ríkisstofnanir eins og til að mynda Umhverfisstofnun sem hefur í mörg ár auglýst stöður eða störf án staðsetningar og segja sem svo: Þú getur verið bókari, þú getur verið eftirlitsmaður, þú getur verið nánast hvað sem er sem undir stofnunina heyrir, á verksviði stofnunarinnar, og þú getur verið staðsett eða staðsettur á fimm eða sjö mismunandi stöðum úti um land en verið starfsmaður Umhverfisstofnunar.

Hið sama gildir um stofnanir eins og Veðurstofu Íslands og sífellt fleiri stofnanir því að þetta er nútíminn, ekki að hugsa um eina stofnun sem færð er úr einum stað í annan, heldur að þróa starfsumhverfi ríkisstofnananna þannig að hægt sé í auknum mæli að vinna störfin óháð búsetu. Það er nútíminn.

Hugmyndin um Fiskistofu er gamaldags og úrelt strax þegar hún kemur fram og frumvarpið er það líka af sömu ástæðum.

Ég hef verið talsmaður þess að við höldum jafnvægi milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis eins og nokkur er kostur að því er varðar opinber störf. Ég held að leiðin til þess að halda því til haga sé einhvers konar miðlægt starfabókhald opinberra starfa, vegna þess að það að ætla sér að flytja Fiskistofu með annarri og á sama tíma fækka störfum kennara við framhaldsskóla úti um land er náttúrlega út í hött. Því er haldið fram að verið sé að vinna í þágu opinberra starfa úti um land meðan verið er að leggja þau niður með hinni hendinni. Á meðan við höfum ekki einhvers konar aðgengilegt miðlægt starfabókhald hins opinbera, þar sem við sjáum um leið og störfin verða til, þeim fækkar eða fjölgar, óháð því undir hvaða ráðuneyti eða ráðherra verkefnið er, þá er þetta marklaust, vegna þess að þetta snýst aldrei um stofnanir, þetta snýst um fjölda starfa.

Þegar ég gegndi embætti umhverfisráðherra varð ég sífellt meira spennt fyrir þeirri hugsun að það væru til úti um land eins konar opinberar einingar sem vistuðu starfsmenn ýmissa stofnana. Við gætum kallað það umhverfisstofur fjórðungsins eða það geta verið sjö eða átta svæði úti um land, það gæti verið ein á Vestfjörðum og ein á norðaustursvæði eða hvernig sem það væri hugsað. Á þessum stöðum væru starfsmenn ýmissa opinberra stofnana sem væru þar ýmist vegna þess að þeir vildu búa á viðkomandi svæði og vinna sína vinnu yfir netið eða vegna nálægðar við verkefni sín, eins og háttar til um eftirlitsverkefni á vegum Umhverfisstofnunar, rannsóknarverkefni á vegum Náttúrufræðistofnunar eða vöktunarverkefni á vegum Veðurstofu Íslands. Þetta er nútíminn. Þetta er í raun og veru sú hugsun sem við verðum að fara sífellt meira inn í, að við séum sífellt minna bundin við stað og stund að því er varðar vinnu okkar, en ekki háð því eins og öll þessi hugsun hér gerir ráð fyrir, sem sé gamaldags hugsun um það hvað stofnanir eru.

Í öðru lagi vil ég segja að ég hef áhyggjur af því að Framsóknarflokkurinn sé að leiða ófrið milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis, sé að vinna sérstaklega að því að halda því ófriðarástandi í gangi. Af hverju segi ég það? Annað viðfangsefni sem kom inn í sali Alþingis, án þess að nokkur hefði áhuga á því nema hv. þm. Höskuldur Þór Þórhallsson, er umræðan um Reykjavíkurflugvöll sem er eiginlega ekki umræðan um Reykjavíkurflugvöll heldur táknræn umræða um þetta, þ.e. að við sem erum búsett á höfuðborgarsvæðinu, sem erum þingmenn Reykjavíkur, þingmenn höfuðborgarsvæðisins eða Kragans, þurfum eiginlega að biðjast afsökunar. Við þurfum að biðjast afsökunar á því í hverju málinu á fætur öðru að við séum fulltrúar höfuðborgarsvæðisins, að við séum að tala hér fyrir sterkri, góðri, lifandi og öflugri höfuðborg. Má það ekki? Það mætti halda það. Og þegar maður sér það mál koma með þessum ófriði inn í þingið og síðan þetta mál sem er grein af sama meiði, þessi ófriðarleiðangur Framsóknarflokksins gegn höfuðborgarsvæðinu sem er, og það kemur mér á óvart, studdur af Sjálfstæðisflokknum sem hefur stundum í gegnum tíðina verið til í að standa með höfuðborgarsvæðinu. Í mínum huga er eina leiðin til þess að við eigum sterka landsbyggð og öflugt samfélag yfir höfuð að við þorum að tala fyrir góðri höfuðborg, vegna þess að það fer nefnilega saman.

Byggðastefna á sér ekki aðeins eina hlið. Góð byggðastefna snýst ekki einungis um byggðir úti um land heldur líka um stolta höfuðborg. Það er líka byggðastefna. Þetta er ekki tvennt ólíkt. Þetta er samofið. Ófriðarleiðangur Framsóknarflokksins sem birtist í hverju þingmálinu á fætur öðru er eitthvað sem við þurfum að taka upp á yfirborðið og ræða, vegna þess að hvert þingmálið á fætur öðru er birtingarmynd þeirra slagsmála þar sem blásið er í glæðurnar og þeim haldið vakandi í þágu þessa ófriðarleiðangurs. Þetta vil ég segja.

Í þriðja lagi vil ég nefna í þessari ræðu það sem kemur fram í 3. gr. og varðar ráðherranefndir. Ég verð að segja það, virðulegur forseti, að ég skil ekki fyrirbærið ráðherranefndir þegar það er orðið partur af löggjöf. Við gerðum auðvitað ráð fyrir því í síðustu breytingum á stjórnarráðslögum að ráðherranefndir gætu starfað, en hér er verið að festa í sessi tilteknar ráðherranefndir, annars vegar um ríkisfjármál og hins vegar um efnahagsmál. Þetta er gert algjörlega án þess að það sé varpað með nokkru móti ljósi á þær spurningar sem það felur í sér. Við búum við það stjórnarfyrirkomulag að ríkisstjórn Íslands er ekki fjölskipað stjórnvald, að hver ráðherra fer í raun með endanlegt vald í málaflokki sínum í umboði Alþingis. Þegar við erum hér samkvæmt lögum, samkvæmt stjórnarráðslögum, að setja saman og skylda tiltekna ráðherra til þess að eiga tiltekna fundi um tiltekin mál, án þess að getið sé um það hvað slíkar ákvarðanir fela í sér eða hvaða stjórnskipulega stöðu þessar ráðherranefndir hafa, þá erum við ekki að vinna til neins gagns. Í góðri ríkisstjórn hafa ráðherrar samráð og þeir eiga að gera það. Þeir eiga ekki aðeins að gera það um efnahagsmál og ríkisfjármál, þeir eiga líka að gera það um auðlindamál, þeir eiga að gera það um ferðaþjónustuna, þeir eiga að gera það um innviði, þeir eiga að gera það um auðlindir, þeir eiga að gera það um velferðarmál. Það gefur augaleið að Stjórnarráðið hlýtur að eiga að vera samstillt og ráðherrarnir að fjalla sameiginlega um þau mál sem tengjast milli ráðuneyta. En ekki hvað? En maður kynni að gagnálykta frá 3. gr. að þetta væri það samráð sem væri bundið í lögum en annað samráð þyrfti ekki að hafa, eða hvað?

Hvernig fer með ráðherranefnd um ríkisfjármál eða ráðherranefnd um efnahagsmál ef ráðherrarnir eru ósammála, ef þeir eru ósammála um niðurstöðu samráðsins? Eða ef ráðherranefndin telur fleiri ráðherra, á þá að bera þann þriðja atkvæðum? Hver er þá staða ákvörðunarinnar? Þetta er algjörlega óljóst. Sú nálgun stríðir að mínu mati algerlega gegn íslenskri stjórnskipan. Um það er ekki fjallað.

Af því hef ég áhyggjur vegna þess að mér finnst þessi ráðherranefndarumræða að mörgu leyti vera í lausu lofti. Mér finnst við ekki vera búin að setja neitt akkeri á þessa hugsun og mér finnst þetta ekki til bóta. Þetta er auðvitað ekki meginefni frumvarpsins, en það er eitt af því sem er undir og ég vil þess vegna nefna.

Í fjórða lagi vil ég aðeins nefna umræðu sem hefur komið upp í andsvörum, bæði við hv. þm. Róbert Marshall og hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur. Það er sú staða sem boðið er upp á samkvæmt 8. gr., þ.e. að forsætisráðuneytið og forsætisráðherra gefi stjórnvöldum ráð um túlkun siðareglna þegar eftir því er leitað og þar með séum við búin að leggja niður nefnd um siðferðileg viðmið og samhæfingarnefnd og allir þeir „instansar“ eru í raun og veru teknir út. Þótt það komi fram í greinargerð með málinu og í nefndaráliti meiri hlutans að verkefnið sé mikilvægt er það samt sem áður tekið út. Verkefnið er mikilvægt en við ætlum að hætta að sinna því eins og við höfum verið að sinna því og fara að sinna því þannig að þetta sé bara á borði forsætisráðherra. Gott og vel. En hvað þýðir það? Hvað þýðir það ef forsætisráðherra á að skera úr um siðferðileg álitamál sem kunna að lenda á borði annarra ráðherra í ríkisstjórninni? Hvað felur það í sér? Það felur í sér að forsætisráðherrann sjálfur er hafinn yfir vafa. Forsætisráðherrann sjálfur lendir væntanlega aldrei í neinum álitamálum. Forsætisráðuneytið sjálft þarf væntanlega aldrei að velta fyrir sér siðferðilegum viðmiðum varðandi eigin embættisfærslur. Eða hvað? Hvert á þá forsætisráðherrann að leita þegar hann lendir í vandræðum? Á sama tíma er sá forsætisráðherra sem gegnir embættinu akkúrat núna þegar málið er lagt fram sá hinn sami og í sinni tíð sem óbreyttur þingmaður á síðasta kjörtímabili talaði um réttar skoðanir og rangar.

Ég vil draga upp hér hversu mikil hætta er þarna á ferðum, hversu óheilbrigt umhverfi við erum að búa til með því móti að líta svo á að á einhverjum tímum, ekki einungis á þessum tíma heldur á einhverjum tímum sé það þannig að forsætisráðherrann eigi að vera ósnertanlegur að því er varðar siðferðileg viðmið og siðferðileg álitamál og hann sé í þeirri stöðu að segja öðrum hvenær þeir séu á réttri leið og hvenær rangri, vegna þess að hann hafi þá stöðu að vera þess umkominn.

Mér finnst þetta verulega alvarleg staða sem frumvarpið dregur hér upp og finnst það raunar með algjörum ólíkindum. En það er algjörlega í þeim dúr sem önnur frumvörp eru sem hafa komið frá forsætisráðherra, eins og til að mynda það sem varðar verndarsvæði í byggð og snýst um að leggja sjálfsákvörðunarrétti til sveitarfélaga og leggja skipulagslöggjöfinni og draga inn á borð forsætisráðherrans einhverjar teikningar af gömlum byggingum og gömlum húsum sem hann getur þá ákveðið hverjar séu þess verðugar og hverjar síður. Þetta er ekki heilbrigt ástand, virðulegur forseti. Þetta er ekki það ástand sem við viljum búa við í nútímasamfélagi þar sem gagnsæi á að ríkja. Við þurfum auðvitað að búa við það að sæmilegt traust sé á að það liggi málefnaleg sjónarmið til grundvallar allri ákvarðanatöku, en ekki þannig að það sé geðþóttayfirbragð á hverju málinu á fætur öðru sem kemur frá forsætisráðherra.

Í fimmta lagi langar mig að nefna nokkurt áhyggjuefni sem ég hef líka nefnt í andsvörum, sem lýtur að stöðunni á vinnumarkaði og samspili þessa frumvarps við þá stöðu. Við vitum það að enn standa yfir kjaradeilur milli BHM og ríkisins og á sama tíma er hér verið að leggja til að skerða verulega stöðu félaga í Bandalagi háskólamanna. Það kemur fram í umsögn Bandalags háskólamanna að bandalagið hafi mjög miklar áhyggjur af tillögu um útvíkkun heimilda til að flytja starfsmenn milli ráðuneyta og stofnana og telji þá tillögu illa undirbyggða. Bandalagið kemst að þeirri niðurstöðu í lok umsagnar sinnar að BHM leggist alfarið gegn frumvarpinu og ítrekar að valdatilflutningurinn sem felst í frumvarpinu sé í ósamræmi við þau viðhorf sem uppi hafa verið í samfélaginu á síðustu árum um að það beri að efla löggjafarvaldið og Alþingi.

Við erum í raun og veru að tala um að á sama tíma og þetta samtal er í gangi, samtalið milli háskólamanna og ríkisins, er lagt til af meiri hlutanum að samþykkja breytingar á stöðu háskólamanna, opinberra starfsmanna á vegum ríkisins, að breyta starfsumhverfi þeirra hvað þetta varðar, þvert ofan í umsögn þeirra. Það kemur manni svo sem ekki á óvart ef marka má samningatækni eða samningsvilja þeirrar ríkisstjórnar sem hér er eða þess meiri hluta sem nú er við völd, sem virðist ekki vera sérstaklega lagið að skapa gott andrúmsloft eða einhvers konar umhverfi fyrir uppbyggilegar umræður. En ég er ekki viss um það, virðulegi forseti, ég varð ekki vör við það hjá framsögumanni meiri hluta að þetta væri sérstaklega rætt, að um þetta væri sérstaklega fjallað, þ.e. hvernig þetta tiltekna þingmál félli að þeirri viðkvæmu stöðu sem nú er á vinnumarkaði, og mér finnst eiginlega óásættanlegt annað en að einhverjir þingmenn meiri hlutans fjalli um það með einhverju móti.

Virðulegur forseti. Það liggur sem sé fyrir, af því að nú er ég komin að lokum ræðu minnar, að hér er verið að auka völd ráðherra. Það er verið að færa völd inn á ríkisstjórnarborðið. Menn hafa svarað því til að auðvitað verði ráðherrann að rökstyðja ákvarðanir sínar. Gott og vel, en ég treysti ekki þessari ríkisstjórn til að gera það svo málefnalega sé vegna þess hvernig hún hefur farið með vald. Ég tel því að það sé mjög mikið óráð að auka völd þessarar tilteknu ríkisstjórnar og að auka völd ráðherra og ríkisstjórnar sem oftar en ekki hefur, því miður, gerst ber hér að bæði valdbeitingartöktum, mjög alvarlegum valdbeitingartöktum, og fúski. Fúskið er náttúrlega mest áberandi í SMS-embættisfærslunum en er sannarlega og því miður að finna víðar. Ég leggst því mjög eindregið gegn þessu frumvarpi sem er til umræðu.