144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[15:28]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir um margt hugvekjandi ræðu. Ég held nefnilega að það sé mjög góður punktur sem hv. þingmaður kom inn á, að það að flytja stofnanir eitthvert annað eins og kassa með fólki og innvolsi, eins og gert var t.d. í tilviki Landmælinga þegar þær voru fluttar til Akraness, sé liðin tíð vegna þess að það er auðvitað hægt að flytja störf eiginlega hvert sem er á landinu. Við erum í miklu betri færum í dag en við höfum nokkurn tímann verið áður með að dreifa opinberum störfum út um hvippinn og hvappinn. Það er alveg augljóst þegar maður hugsar um það að þessi tilflutningur á störfum, t.d. á Fiskistofu, sem er kveikjan að þessu máli, er arfur liðinnar tíðar, hugarheims sem er í raun horfinn. (Forseti hringir.) Ég held að það sé sameiginlegur skilningur okkar hv. þingmanns á þessu máli.