144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[15:36]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í 10. gr. b er verið að fjalla um heimild til að flytja starfsmenn á milli stofnana án þess að starf sé auglýst. Þetta vekur hjá mér ákveðna hugsun um það, líka byggt á reynslu úr Stjórnarráðinu, hvort við þyrftum ekki að vera með eina öfluga starfsmannaskrifstofu sem sæi um ráðningar. Þá væru armslengdarsjónarmið og önnur fagleg sjónarmið tryggð, innan slíkrar ráðningarskrifstofu Stjórnarráðsins sem síðan héldi utan um það bókhald sem hv. þingmaður er að nefna; og gæti þá líka haldið mynduglega á starfsmannamálunum og rekið almenna stefnu fyrir ríkið í þeim málum þannig að ákveðið samræmi væri í því. Sömuleiðis gætu starfsmenn óskað eftir því í gegnum þessa skrifstofu að fá sig flutta eða vera settir á lista yfir mögulega (Forseti hringir.) kandídata í önnur störf á vegum hins opinbera. Það gæti orðið ákveðin fagmennska (Forseti hringir.) í þessu og líka tækifæri fyrir opinbera starfsmenn.