144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[15:39]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er bæði gott og hressilegt þegar þingmenn tala hreint út og segja hlutina eins og þeir eru. Það fannst mér hv. þingmaður gera í ræðu sinni þegar hún talaði um ófriðinn sem Framsóknarflokkurinn virðist vera að reyna að efna til hér á milli landsbyggðar og höfuðborgar. Ég er henni hjartanlega sammála um að það er vont mál ef svo má að orði komast.

Við sem erum fulltrúar fyrir höfuðborgarsvæðið og Reykjavík kannski sérstaklega — maður finnur fyrir hálfgerðri sektarkennd og segir: Bíddu, hvað er ég að gera af mér? Svo erum við skömmuð fyrir að hugsa ekki um kjördæmið, þannig að þetta er erfitt mál.

Hér hefur verið komið inn á nokkrar leiðir en ég spyr þingmanninn: Er kannski ekki kominn tími til að þetta verði skoðað (Forseti hringir.) heildstætt, eins og sagt er? Mér finnst það nú ekki skemmtilegt orð, en að það verði virkilega ráðist í að skoða þessi mál og hvernig (Forseti hringir.) við getum best komið þeim fyrir.