144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[15:40]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég held að það sé bara mjög mikilvægt. Ég er alveg sammála því, og raunar mjög upptekin af því svona inn á milli, að það er mjög mikilvægt að við séum ekki haldin því að við þurfum að skammast okkar fyrir að vera þingmenn Reykjavíkur. Mér finnst það stundum liggja í loftinu að við eigum að gera það.

Það sem hv. þingmaður er að víkja að hér, varðandi heildstæða skoðun á málinu, þá er ýmislegt þar undir, til að mynda kjördæmaskiptingin á Íslandi, til að mynda kosningalögin, hvernig þeim er fyrirkomið, hvernig þingmönnum er raðað á lista og vægi atkvæða og ýmislegt annað sem þarf að ræða í því samhengi til að tryggja að lýðræðiskeðjan sé ekki rofin á leiðinni, að kjósendur finni fyrir því að því afli sem þeir gefa sínum þingmanni sé skilað alla leið. Þingmenn Reykjavíkur hafa líka kefli sem þeir eiga að bera áfram, ekki bara þeir þingmenn sem eru af landsbyggðinni og líka að finna leið til að auka traust á milli þessara aðila.

Þess vegna hef ég áhyggjur af (Forseti hringir.) því þegar pólitískir flokkar, eins og Framsóknarflokkurinn, gera beinlínis út á þennan ágreining.