144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[15:43]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Þetta er mjög áhugaverð umræða sem við ættum að gefa miklu meiri gaum, þ.e. hvaða vettvangur er ríkisstjórn Íslands í raun? Eins og ég sagði áðan þá er ríkisstjórn Íslands ekki fjölskipað stjórnvald. Ákvarðanir eru því í raun ekki teknar á ríkisstjórnarfundi heldur er ríkisstjórnin vettvangur fyrir samráð ráðherra um þau stjórnarmálefni sem viðkomandi ber ábyrgð á. Auðvitað getur ríkisstjórnarfundurinn sameiginlega tekið ákvörðun um að mál séu lögð fram til þingsins sem stjórnarfrumvörp, það er sameiginleg ákvörðun þeirra ráðherra sem við borðið sitja. En efnisleg niðurstaða einstakra þingmála eða stjórnarfrumvarpa, öðruvísi en það bara stafi af pólitísku samráði, er hvergi bundin í lögum. Þess vegna felur það í sér í sjálfu sér ákveðna hættu, ef svo má að orði komast, ef við lögbindum tiltekið samráð að það samráð eigi sér stað einhvers staðar en þau samtöl eigi sér þá ekki stað á ríkisstjórnarfundinum.