144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:07]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er algjörlega sammála hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur að það er Alþingi sem á að fjalla um þetta. Þrátt fyrir að við tölum að upplausn sé á Alþingi og við séum í vandræðum með þingið, hér sé ágreiningur og við séum að ræða fundarstjórn forseta o.s.frv. þá eru yfir 90% af málum sem koma inn í þingið afgreidd í sátt. Ferlið er þannig að eftir 1. umr. fara mál til nefndar, nefndin sendir málið til umsagnar, málið er rætt og skoðað og fjallað um það í nefndinni, kallaðir eru til gestir o.s.frv. Málið er líka sent út og það gleymist gjarnan að hver einasti einstaklingur í þessu landi getur sent inn umsögn. Það er hægt að fara á netið og fylla út eyðublað og senda inn umsögn. Þótt sú umsögn sé frá einum einstaklingi, hvort sem er á Austurlandi, Vesturlandi eða Reykjavík, er hún jafngild umsögn frá félagi. Þetta er lýðræðisleg leið til að fjalla um mál og taka síðan ákvarðanir um þau.

Ég tek undir með hv. þingmanni að þetta er ekki svo þungt ferli, af því að við erum ekki að þessu daglega, að ástæða sé til að veigra sér við að fara þá leið. Við erum með fullt af hugmyndum einstaklinga, það geta verið ástæður, menn hafa rætt um að Jafnréttisstofa ætti ekki að vera á Akureyri, það eru margir sem hafa þá skoðun. Það voru margir hissa á því að Fjölmennningarsetrið væri staðsett á Ísafirði. Eigum við þá á hættu að svona hlutum verði breytt án þess að menn fái að fjalla um þá? Eða verðum við í auknum mæli að setja inn í öll lög um einstakar stofnanir að það sé heimilisfesti, sem getur verið jafn vitlaust? Það verður þá að vera sjálfstætt fyrir hverja stofnun og er breyting sem er gerð með lagabreytingu.

Ég held að þarna eigi að horfa til lengri tíma, til meginmarkmiða, og ræða hvað kemur til greina að skoða, hvernig við eflum þjónustuna, og síðan komi ákvörðunin eftir vel ígrundaða umfjöllun.