144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:12]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek heils hugar undir það með hv. þingmanni að þetta er ekki svart og hvítt, þetta er ekki spurning um eina leið frekar en aðra. Eins og ég hef bent á var það þannig að þegar menn voru búnir að fara í gegnum rannsóknarskýrsluna og skýrslu þingmannanefndarinnar var skipaður hópur sem fjallaði um stjórnsýsluna og var það forsenda þess að stjórnsýslulögin voru sett. Sá hópur gerði tillögu um að sveigjanleiki væri milli Stjórnarráðsins og stofnana, þannig að það sé sagt.

Niðurstaðan í umfjöllun þingsins á þeim tíma var að binda sig við ráðuneytin, sem er býsna stór hópur, og að menn gætu fært sig þar á milli eða sótt um að fara á milli eða, eins og hér hefur komið fram, að menn gætu kallað eftir ákveðnum starfsmönnum vegna þess að verið væri að vinna að ákveðnum verkefnum, beðið um að þeir væru færðir á milli ráðuneyta og menn þannig nýtt sér mannauðinn. Í því geta falist tækifæri, möguleikar á að fá að njóta sín á ákveðnum sviðum, það getur skapað endurnýjun og ferskleika fyrir viðkomandi starfsmenn og allt það.

Vandamálið er alltaf það sama: Það má aldrei vera hægt að beita hótunum ef færa á fólk, það þarf að hafa mjög skýrar reglur um hvernig það eigi að gera. Hættan við að blanda stofnunum inn í er að þá verður að fjalla um hvaða stofnanir það eru. Það eru ákveðnar stofnanir sem gegna eftirlitshlutverki eða eru sjálfstæðar stofnanir, við getum tekið t.d. Samkeppniseftirlitið sem á að vakta framkvæmd stjórnsýslunnar, við getum tekið Fjármálaeftirlitið og ýmislegt annað, þess vegna umboðsmann Alþingis, og það má ekki vera þannig að ráðherrar eða yfirmenn ráðuneyta geti óskað eftir því að fólk sé fært og því nánast hótað þannig, eða maður getur talað um það. Það setur fólk í afar óþægilega stöðu og veikir stofnanirnar sem eiga að hafa sjálfstæði, eiga að sýna frumkvæði og bera ábyrgð. Hv. þingmaður, það er allt saman fjarlægt ef þetta er einhver annar aðili og það er auðvitað ekki gott. Þess vegna (Forseti hringir.) held ég að þessi breyting sé óþörf. Ég held að betra sé að þróa áfram það sem nú þegar er í lögum.