144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:23]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Það hafa nú þegar verið haldnar hér margar ágætar ræður um þetta frumvarp og nefndarálitin sem því fylgja, og það kemur ekki á óvart að meiri hluti og minni hluti hafi ekki náð að sameinast um málið, minni hlutinn leggst gegn því. Öll umfjöllun um málið hefur auðvitað litast af því að hér var ákveðið með mjög furðulegum hætti að flytja Fiskistofu, sem reyndar hefur verið hætt við, og með frumvarpinu er meðal annars verið að leita eftir lagaheimild til þess að það geti orðið.

Mig langar að fjalla um 8. gr. frumvarpsins, þar sem verið er að fella brott ákvæði um samhæfingarnefnd um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna. Það er gert án þess, eins og minni hlutinn bendir á — ég er með svo mikið af pappírum hérna — minni hlutinn hefur ríkar efasemdir um það að þetta ákvæði falli brott og að takmarkaður rökstuðningur sé fyrir því í frumvarpinu og ekki ljóst hver ætlunin sé með breytingunni. Minni hlutinn hvetur því til þess að þetta sé skoðað mun betur. Og það er ekki að ástæðulausu, herra forseti, því að það er nú heldur betur þannig að ákvæðið varð ekki til úr engu, það er ekki eins og þetta hafi komið þarna inn sem eitthvert smávægilegt atriði.

Þetta var fyrst sett inn í lög um Stjórnarráð Íslands árið 2010, í kjölfar hruns bankanna, og um svipað leyti og við vorum í umræðu um rannsóknarskýrslu Alþingis um hrun bankanna þar sem sérstakt bindi var um siðferðismál. Þetta var leið til þess að endurbyggja traust á íslenskri stjórnsýslu, og það er nú mikið í húfi þegar traust stjórnsýslunnar er annars vegar.

Ég hef blaðað í frumvarpi frá 2010 um breytingar á þágildandi lögum. Þar er mjög ítarlega farið yfir mikilvægi siðareglna, hvað þær eigi að innihalda, hvernig þetta sé í öðrum ríkjum, hvað alþjóðleg viðmið og ráðleggingar segi. Þetta er mjög ítarlegt í því frumvarpi, sem sagt 2010, þar sem samhæfingarnefnd um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna kemur fyrst við sögu. Þar segir um hana í frumvarpinu, því gamla frumvarpi, með leyfi forseta:

„Sú nefnd mun hafa fjölþætt samræmingar- og leiðbeiningarhlutverk að því er varðar aðgerðir stjórnvalda til að draga úr hættunni á spillingu og efla virðingu við grundvallargildi starfsemi ríkisins. Til að tryggja samræmi milli hinna ýmsu siðareglna er gert ráð fyrir að samhæfingarnefndin veiti umsögn um drög að þeim. Ekki síst er þetta mikilvægt varðandi þær almennu siðareglur sem fjármálaráðherra mun gefa út, samanber síðar, og siðareglur fyrir Stjórnarráð Íslands sem forsætisráðherra mun gefa út. Þá mun nefndin hafa samráð við umboðsmann Alþingis og Ríkisendurskoðun en þau embætti hafa öðrum þræði það hlutverk að stuðla að vandaðri stjórnsýslu, sem getur tengst mjög siðareglum og beitingu þeirra. Lagt er til að samhæfingarnefndin gefi forsætisráðherra árlega skýrslu um störf sín og að hún verði kynnt Alþingi. Þar mundu koma fram eftir atvikum ábendingar um atriði sem betur mættu fara.“

Eins og ég sagði, hæstv. forseti, er þetta ákvæði um samhæfingarnefndina sett inn samhliða greinargerð um siðareglur og ýmis atriði hvað þær varðar á margra blaðsíðna, ef ekki tuga blaðsíðna, greinargerð. Það er því ýmislegt sem hangir á þessari spýtu.

Síðan eru lögð fram ný lög um Stjórnarráð Íslands árið 2011, þegar búið var sem sagt að fara yfir það mjög ítarlega, og þá eru gerðar breytingar á samhæfingarnefndinni — þetta er nú ekki þjált nafn á þeirri ágætu nefnd — en gerð er breyting varðandi samhæfingarnefnd þannig að það verði skýrt betur að nefndin veiti ekki einungis umsögn um drög að siðareglum, heldur geti hún einnig gefið stjórnvöldum ráð um túlkun slíkra reglna. Þarna er því verið að, þó að það hafi verið ljóst áður að hún átti að vera viðvarandi, gefa henni líka lögbundið hlutverk um aðstoð við túlkun siðareglna. Það er hlutverk sem við ætlum núna alfarið, ef þetta verður að lögum, að setja í hendurnar á forsætisráðuneytinu.

Þegar verið er að setja þetta þarna inn þá er ákveðið ferli sem — nú er ég búin, herra forseti, að týna hér blaðsíðu. Í frumvarpinu frá 2010 er fylgiskjal 1, þ.e. aðgerðaáætlun um bætt siðferði í stjórnsýslu ríkisins. Það er langvarandi ferli þegar á að bæta siðferði og það er viðvarandi ferli að viðhalda góðu siðferði og það eiga að vera stöðugar umræður um hvað felst í góðu siðferði og breytingar eru á alþjóðlegum viðmiðum um það. Það er stöðug þróun á þessu sviði, enda vantraust á stjórnsýslu og stjórnvöldum ekki eingöngu bundið við Ísland, því miður, það er víst alþjóðlegt vandamál. Eins og ég segi, þetta er ferli og þetta er viðvarandi ferli, ekki eitthvað sem þú gerir í eitt skipti fyrir öll. Þú þarft að vinna þér inn traust og þú þarft að viðhalda því trausti með góðu siðferði og skýrum reglum, gegnsæi og eins eftirliti.

Þessi aðgerðaáætlun átti að hefjast á því að lög væru sett, og síðan átti að skipa samhæfingarnefnd og koma á reglulegu samráði við umboðsmann Alþingis og Ríkisendurskoðun. Síðan átti fjármálaráðherra að staðfesta almennar siðareglur fyrir stjórnsýslu ríkisins að teknu tilliti til niðurstöðu þjóðfundar sem haldinn var í nóvember 2009. Þá átti forsætisráðherra að staðfesta siðareglur fyrir starfsmenn Stjórnarráðs Íslands og ráðherra og eftir atvikum fyrir aðstoðarmenn ráðherra. Svo átti að skipuleggja fræðslu af hálfu fjármálaráðuneytisins til stjórnenda og annarra starfsmanna. Umboðsmaður Alþingis átti að sjá til þess að í starfsliði hans væri starfsmaður með þekkingu á siðfræðilegum efnum. Síðan áttu einstakar ríkisstofnanir að setja sér siðareglur að höfðu samráði við starfsmenn, fjármálaráðuneytið og eftir atvikum samhæfingarnefnd. Síðan átti að kynna ríkisstarfsmönnum og almenningi möguleikann á því að skjóta meintum brotum á siðareglum til umboðsmanns Alþingis. Síðast í áætluninni á siðanefnd að skila fyrstu ársskýrslu til forsætisráðherra og að lokum á að leggja ársskýrslu fyrir Alþingi. Tökum eftir því, hæstv. forseti, að þetta er fyrsta skýrsla, fyrsta skýrsla í röð árlegra skýrslna sem á að birta á grundvelli þessa.

Í núgildandi lögum, í 25. gr., er fjallað um þessa samhæfingarnefnd og farið er yfir helstu verkefni nefndarinnar, sem meiri hluti Alþingis vill samkvæmt nefndaráliti meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar leggja af.

Nefndin hafði auðvitað mjög mikilvægt hlutverk í því þegar verið var að semja reglurnar, að vera þar leiðbeinandi og slíkt. Nú eru þær komnar en þeim þarf að viðhalda. Eins og ég kom inn á var hlutverki hennar breytt þannig að hún gæfi líka ráð um túlkun þeirra. Og hún á að beita sér fyrir upplýsingaöflun og fræðirannsóknum á málefnasviði nefndarinnar, sem sagt að eiga samtöl við fræðasamfélagið, þannig að verið sé að fjalla um siðferðisleg málefni á þeim vettvangi sem síðan væri hægt að nýta við endurskoðun á siðareglum fyrir stjórnsýsluna. Hún á að stuðla að því að brugðist sé með samhæfðum hætti við ábendingum. Hún á að taka þátt í samstarfi við félagasamtök, stofnanir og embætti hér á landi og erlendis sem vinna gegn spillingu í opinbera geiranum. Og hún á að gefa forsætisráðherra árlega skýrslu þar sem fram komi, ef ástæða þykir, tillögur til stjórnvalda um frekari aðgerðir til að efla traust á stjórnsýslu ríkisins og draga úr hættu á spillingu og vanda betur til verka í stjórnsýslunni. Skýrslan skal lögð fyrir Alþingi. Hún á svo auðvitað að hafa samráð við Ríkisendurskoðun og umboðsmann Alþingis.

Samhæfingarnefndin er nefnd sem á að hafa það hlutverk að viðhalda því að siðareglurnar þróist, veita ráðgjöf varðandi túlkun og koma með ábendingar ef eitthvað er sem þarf að lagfæra.

Í frumvarpinu sem hér er til umfjöllunar segir að það sé nú bara allt í lagi að leggja þessa nefnd af, því að búið sé að koma á siðareglum, og horft alveg fram hjá því að það var bara hlutverk nefndarinnar í upphafi. En það kemur líka fram að langflestir starfsmenn Stjórnarráðsins telja siðareglur mikilvægan þátt í starfi sínu en að skort hefði fræðslu og eftirfylgni með reglunum. Og svo telur meiri hlutinn — já, ég biðst velvirðingar, ég er nefnilega komin hingað, ég er að þvæla hérna. Ég ætlaði að tala um greinargerðina með 8. gr. í frumvarpinu, en var komin yfir í álit meiri hluta.

Í frumvarpinu er bent á að fá erindi hafi borist nefndinni. Það er þá kannski ástæða til að kanna hvort það sé af eðlilegum ástæðum, að það sé það gott siðferði innan stjórnsýslunnar eða hvort einhverjir vankantar séu sem þurfi að lagfæra, því að það getur verið mikilvægt fyrir fólk að geta farið til hlutlauss aðila með ábendingar sínar, sérstaklega ef það er næsti yfirmaður. Ef næsti yfirmaður er til dæmis ráðuneytisstjóri eða ef viðkomandi telur að ráðherra hafi með einhverjum hætti brotið siðareglur, tölum ekki um ef einhver telur til dæmis að forsætisráðherra í einhverju tilviki hafi brotið siðareglur, á þá að fara með það til forsætisráðuneytisins? Þessu þarf að svara en því hefur ekki verið svarað. Þetta virðist hafa verið rætt mun minna í nefndinni en tilflutningur stofnana, enda hef ég fullan skilning á því í ljósi málsins með Fiskistofu.

Eins og ég kom að í upphafi í máli mínu er hlutverk samhæfingarnefndar að koma með tillögur til stjórnvalda um frekari aðgerðir til að efla traust á stjórnsýslu ríkisins, draga úr hættu á spillingu og vanda betur til verka í stjórnsýslunni. En hvernig er með spillinguna? Nýlega fengum við frétt af því — á visir.is fann ég hana, ég mundi eftir þessu og það hefur eflaust verið talað um þetta víðar — að nefnd á vegum OECD hafi átalið íslensk stjórnvöld fyrir seinagang í innleiðingu samnings um mútugreiðslur og að við séum aðili að sáttmála innan OECD um að berjast gegn spillingu og að við höfum aðeins tekið upp tvær tillögur að fullu og innleitt í íslensk lög en 15 tillögur hafi ekki orðið að lögum. Nú er ég ekki endilega að blanda þessu við siðareglur Stjórnarráðsins, en það sýnir að við þurfum kannski á allri þeirri aðstoð að halda sem við getum til að fá leiðbeiningar í siðferðislegum efnum og til að halda okkur við efnið. Maðurinn, hæstv. ráðherra, sem leiðir ráðuneytið, sem nú á að verða eins konar samhæfingarnefnd, lét ekki ná í sig eða vildi ekki tjá sig þegar hann var inntur eftir því af hverju Ísland hefði staðið sig svona illa í að innleiða löggjöf gegn spillingu. Hann er heldur ekki viðstaddur þegar við ræðum þetta mál. Þetta segi ég ekki í skætingi, hæstv. forseti, heldur er þetta einfaldlega viðvarandi um samskipti hæstv. forsætisráðherra við Alþingi, hann sýnir okkur lítilsvirðingu og hann hefur ekki áhuga á að tala við okkur. Þó að hann boði á góðum stundum róttæka rökhyggju og telji fátt skemmtilegra en rökræðu, þá höfum við hér í sal Alþingis ekki fengið að njóta þess áhuga hæstv. forsætisráðherra.

Nú koma forsætisráðherrar og fara, og lög eiga ekki að smíðast utan um hvern og einn ráðherra. En ég geld varhuga við því að ráðherra sem svo lítinn áhuga hefur á að ræða við aðra alþingismenn á löggjafarsamkundunni fái inn í ráðuneyti sitt alfarið hlutverk þessarar samhæfingarnefndar. Og þó að Ísland ætti besta forsætisráðherra í heimi ættum við ekki að gera þetta, því að lögin eru lög óháð því hver á að framfylgja þeim eða hver á að hafa eftirlit með þeim eða stuðla að þróun þeirra.

Í ljósi þess hversu mikil vinna lá að baki því að lögfesta þessa nefnd og hlutverk hennar er ég algjörlega mótfallin því að hún verði felld úr lögum með ákaflega rýrri greinargerð og bágbornum rökstuðningi. En ég hefði viljað heyra frá hæstv. forsætisráðherra eða framsögumanni málsins, hv. þm. Brynjari Níelssyni, hvers vegna þeir eru fylgjandi því að nefndin verði lögð af.

Það er fjöldi annarra atriða sem ég geri athugasemdir við í frumvarpinu og ég mun fjalla um þau í síðari ræðum mínum um málið.