144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:55]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég persónulega á erfitt með að kveða upp þungan dóm yfir 6. gr., hvort þetta sé gott eða ekki, ég held að á því séu margar hliðar. En þegar verið er að leggja til í einu og sama frumvarpinu að í fyrsta lagi taki ráðherra ákvarðanir um staðsetningu stofnana en ekki Alþingi, í öðru lagi að hægt sé að koma á fót sérstökum starfseiningum og ráðuneytisstofnunum sem starfræktar eru sem hluti af ráðuneyti og í þriðja lagi að flytja megi fólk, ekki aðeins innan Stjórnarráðsins heldur úr undirstofnunum og inn í ráðuneyti og úr ráðuneyti og í undirstofnun, þá finnst manni eins og markmið frumvarpsins sé að draga úr formfestu í stjórnsýslunni og auka vald ráðherra yfir skipan mála þar.

Orðum manns fylgir ábyrgð. Mér finnst sú tilfinning sem stígur upp þegar maður les greinar þessa frumvarps vera geðþótti. Það er auðvitað stundum þreytandi að koma fyrir þingið, sérstaklega ef mönnum er illa við að tala við það, en stundum þarf ráðherra að fara inn í þingið með umdeildar ákvarðanir sem hann þarf að rökstyðja og afla stuðnings við, jafnvel semja um, og hér finnst mér vera geðþótti. Ég óttast að þetta sé ekki til að standa (Forseti hringir.) vörð um betri stjórnsýslu heldur til að auka völd einstakra ráðherra.