144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:25]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég er sammála þingmanninum að margt athyglisvert hafi komið fram við þessa umræðu. Það skýrist alltaf betur þetta sem ég hef kallað laumufarþega. Það gerist mjög oft með frumvörp sem eru lögð fyrir þingið að við fyrstu sýn eru þau um eitthvert eitt atriði en þegar fólk fer að ræða málið betur sést að það eru alls konar fylgifiskar með.

Ég segi með þetta frumvarp, af því að það var ekki rætt nógu mikið í nefndinni, að mér fannst strax augljóst að þarna væru hlutir sem þyrfti að ræða betur. Ég segi eins og er að það var sérstaklega þátturinn um stjórnsýslustofu eða eitthvað svoleiðis sem má setja upp, en ég hafði ekki rekið augun í þær ráðherranefndir sem vakin hefur verið athygli á í dag og hv. þm. Ögmundur Jónasson minntist líka á í framsöguræðu sinni. Þetta er athyglisvert og þarf að hugsa betur.

Nú spyr ég hv. þingmann sem formann nefndarinnar: Komið hefur í ljós að búið er að seinka flutningi Fiskistofu. Það hafa komið fram tillögur um það hvernig þingið gæti hugsanlega komið að flutningi, t.d. með því að leggja þyrfti fram þingsályktun ef ráðherra vildi flytja stofnun, eins og hér er lagt til. Heldur þingmaðurinn að við getum freistað þess að fá að skoða þetta frumvarp í sumar og koma með (Forseti hringir.) breytingar í haust, sem mundu að mörgu leyti uppfylla það sama en væru betur hugsaðar?