144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:53]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Mér finnst það kannski bæta gráu ofan á svart þessi ruglingur sem mér virðist vera og menn virðast toga í sína áttina hver með það hvort stjórnsýsluskrifstofur eigi að vera í ráðuneytinu eða hvort færa eigi þær út úr ráðuneytinu, eða hvort úrskurðarnefndir eigi að vera eða ekki. Mér finnst þessar tillögur eins og þær koma fyrir okkur hérna í þinginu og lagðar fram, það er vissulega þannig að með miðstjórnarvaldinu er verið að taka völd af þinginu. Látum það nú vera kannski, virðulegi forseti, án þess að taka þau orð alveg bókstaflega. Mér finnst að með þeim frumvörpum sem lögð eru hér fram, og þegar maður skoðar þetta í samhengi, séu stjórnvöld og embættismenn að búa til eitthvert kerfi sem hentar þeim í þetta og þetta sinn. Það hentar einhverjum að taka þetta úr ráðuneytinu og öðrum embættismönnum hentar að taka þetta inn í ráðuneytin, en þetta kerfi allt saman er ekki til fyrir embættismennina og það er ekki til fyrir ráðherrana. Það er til fyrir fólkið sem þarf að nota stjórnsýsluna. Mér finnst það gleymast allt of oft og við gleymum því reyndar oft hérna líka því að við förum í eitthvert tog um hver ræður hverju og hver er að ota sínum tota. Það er það sem við eigum náttúrlega alltaf að muna. Allt þetta sem liggur hér fyrir, að tengja það við menntamálaskrifstofuna, það gerir stjórnsýsluna ógagnsærri og er verri þjónusta við fólkið í landinu og verra fyrir það að nota stjórnsýsluna.

Mig langar aðeins til að biðja hv. þingmann að segja mér skoðun sína á (Forseti hringir.) þeim möguleikum á að flytja starfsfólk frá stofnunum (Forseti hringir.) til ráðuneyta og öfugt.