144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:57]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður kom inn á og fjallaði um nýja stofnun og lagagrunn fyrir stofnun hennar, þar sem Námsgagnastofnun og Námsmatsstofnun og hluti af verkefnum mennta- og menningarmálaráðuneytisins er sameinað í eina stofnun. Hv. þingmaður fór yfir spurningar frá umboðsmanni Alþingis. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort það sé rétt skilið hjá mér eða hvort hún telji að forsenda fyrir hinni nýju stofnun sé samþykkt þessa lagafrumvarps sem við erum að fjalla um núna, af því að í þessum breytingum á lögum um Stjórnarráð Íslands er einmitt talað um að það megi stofna svona einingu innan ráðuneyta, en það megi þá jafnframt líka úthýsa verkefnum, ef ég skil þetta rétt, eins og er verið að gera með þessari nýju stofnun sem getur tekið stjórnvaldsákvarðanir.

Spurning mín er þessi: Telur hv. þingmaður að ekki sé möguleiki á að stofna með lögformlegum hætti þessa nýju stofnun nema Alþingi samþykki þetta lagafrumvarp? Hvernig fer þá með frumvarpið um stofnunina nýju sem hv. allsherjar- og menntamálanefnd er að vinna með? Hvernig hafa hv. þingmenn í þeirri nefnd fjallað um þessa stöðu, því að mér skilst að stofnunin sé bara nánast komin á laggirnar og búið að ráða fólk og græja og gera?