144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:07]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar að skoða þetta frumvarp við 2. umr. í samhengi við ákveðnar breiðar línur í þjóðfélaginu. Eitt af því besta sem gerðist eftir hrun var ákveðin lýðræðisvakning. Það sem einkenndi eftirleik hrunsins voru vonbrigði og mikil reiði; við sáum hana, tókum þátt í henni mörg hver, til dæmis hér úti á Austurvelli. En hitt einkenndi líka eftirleik hrunsins sem var djúp þörf til að stunda lýðræðisleg vinnubrögð, samtal, fara í djúpa greiningu á því hverjir framtíðarmöguleikar þjóðarinnar væru, hvað hefði farið úrskeiðis og hvað mætti gera betur. Það voru fjölmörg samtals- og lýðræðisverkefni, að mínu viti, sem voru sett á laggirnar. Ég lít til dæmis svo á að umsóknarferlið um aðild að Evrópusambandinu hafi verið lýðræðisferli og sé enn þó að það sé á pásu. Það fól í sér viðamikið samráð um land allt, faghópar voru að störfum og mun vonandi leiða til þeirrar niðurstöðu að þjóðin tekur ákvörðun í mjög stóru máli.

Farið var í endurskoðun á stjórnarskránni, viðamikið samtalsferli með þjóðfundi, stjórnarskrárnefnd og kosið í stjórnlagaráð. Farið var í rosalega greiningu á möguleikum sem liggja í græna hagkerfinu, um það bil 50 fundir haldnir í nefnd á vegum þingsins sem skilaði viðamikilli skýrslu. Aðilar í atvinnulífinu, sveitarfélögum, ríkisvaldið, íbúar tóku þátt í mótun sóknaráætlunar um land allt, mikið og stórt lýðræðisverkefni. Rammaáætlun leit dagsins ljós, sem er stórt verkefni af þessu tagi líka, og þar fram eftir götunum.

Hér í þingsal var samþykkt fjárfestingaráætlun sem byggði á skýrslugerð aðila í atvinnulífinu, hagsmunasamtaka, vinnu stjórnvalda með mikilli aðkomu fólks. Og mér finnst þetta svolítið flott, þetta lýsir því hvernig á að stunda lýðræðið. Lýðræðið er ekki bara það að maður kjósi á fjögurra ára fresti og svo fái meiri hlutinn vald og megi gera það sem honum sýnist. Lýðræðið er lífsstíll. Lýðræðið er eitthvað sem maður stundar á degi hverjum. Ég held að ekki sé hægt að stjórna farsællega lýðræðislegu samfélagi á 21. öldinni — þar sem fólk er upplýst og fólk hefur aðgang að Google og fólk vill láta heyra í sér og fólk vill að það sé hlustað á sig — öðruvísi en að stunda virkt samráðslýðræði frá degi til dags, ég held að það verði ekkert gert öðruvísi.

Af hverju er ég að tala um þetta? Það er vegna þess að mér finnst þetta frumvarp vera birtingarmynd annarrar hugmyndar um lýðræði og ég held að við séum að kljást við þá hugmynd um lýðræði. Sú hugmynd er einmitt á þá lund að hér sé kosið á fjögurra ára fresti og meiri hluti myndist sem þurfi ekkert, vegna þess að hann sé með umboð, að stunda samráð, tala við fólk eða byggja ákvarðanir sínar á ferlum sem margir koma að. Þetta er gamalgróin hugmynd um lýðræði og hún á sér rætur í samfélagi þar sem ekki var internet og ekki víðtækur almennur aðgangur að upplýsingum; menn gátu kannski skákað í skjóli þess og verið með valdasprotann.

Hvað höfum við séð? Ríkisstjórnin hefur reynt að hætta viðræðum við Evrópusambandið án þess að spyrja þingið. Fjárfestingaráætlun, þetta víðtæka samstarfsverkefni, blásin af. Sóknaráætlun landshluta var blásin af, komin eitthvað smávegis inn aftur. Græna hagkerfið sem ég minntist á áðan, þetta víðtæka samráðsverkefni sem endaði í flottri skýrslu, endaði sem einhver skúffa við gamlar byggingar uppi í forsætisráðuneyti og fjárveitingum, sem í það áttu að fara, hefur verið deilt út með SMS-um úr forsætisráðuneytinu — fullkomið virðingarleysi gagnvart því ferli öllu saman. Við höfum þurft að eiga hér viðureignir í þingsal til að verja lýðræðis- og fagferli eins og rammann. Það liggur mikið við hér og það þarf að verja það. Það er eins og stjórnarmeirihlutanum sé alveg sama um þetta lýðræðislega tól. Í upphafi vikunnar átti að kippa hinu stóra deilumáli, um það hvar Reykjavíkurflugvöllur eigi að vera staðsettur, út úr ferli; taka skipulagsvaldið einfaldlega af tilteknum sveitarfélögum og bara ákveða þetta einhvers staðar annars staðar. Þetta er gamla hugmyndin um lýðræðið.

Hér í þinginu sjáum við þetta. Hér er ekkert verið að tala við minni hlutann, ekki neitt. Hún er gegnumgangandi þessi hugmynd um að meiri hlutinn ráði þessu og samtal og samráð sé til óþurftar og bara tilgangslaust. Það á að leggja Þróunarsamvinnustofnun niður og taka það allt saman inn í ráðuneytið og ákveða þetta þar. Við sjáum hvernig verið er að útdeila fjármunum núna. Það er bara gert með tilkynningum, ríkisstjórnarfundum — vissulega góð verkefni, byggja upp ferðamannastaði og samgöngur, en það er ekkert verið að bera virðingu fyrir fjárlögum í því. Ákvarðanir eru bara teknar annars staðar og væntanlega þá settar inn í fjáraukalög.

Svo sjáum við þetta frumvarp og þetta er nákvæmlega svona. Flytja til stofnanir — á að þurfa að ræða það við einhvern? Er ekki bara hægt að ákveða það, að ráðherra ákveði það bara? Það er langeinfaldast og menn hafa meirihlutavaldið og þurfa ekki að hlusta á aðra í því. Er ekki líka bara fínt að forsætisráðherrann skrifi þessar siðareglur? Þarf einhver annar að vera að því? Þurfum við að hafa eitthvert samráð um það, er þetta ekki bara eitthvað sem við skrifum uppi í ráðuneyti? Sjáið þið til, þetta er orðinn rauður þráður í nálgun ríkisstjórnarinnar á málin. Það er önnur hugmynd og mjög gamaldagshugmynd í gangi í öllum aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Þessi hugmynd um lýðræði rímar ekki við það hvernig samfélagið er og hvað er að gerast í samfélaginu á 21. öldinni. Fólk er upplýst, fólk veit hvað það syngur, fólk les, fólk gúglar, fólk hefur mannréttindi, fólk hefur frelsi, fólk lætur heyra í sér, fólk vill að á það sé hlustað.

Hvað gerðist með Fiskistofu? Hin gamla hugmynd um lýðræðið sem einhvers konar valdboð að ofan — meiri hlutinn ræður, minni hlutinn getur bara farið heim til sín; aðrir hópar geta farið heim til sín, ég ræð — setur allt í klessu. Þegar menn ætluðu að flytja Fiskistofu með því að segja bara á fundi: Við ætlum að flytja Fiskistofu. Spyrja ekki Alþingi, spyrja ekki starfsmenn Fiskistofu, hafa ekki samráð — það virkaði eins og tundurskeyti inn í stofnunina. Við höfum séð hvernig þessi hugmyndafræði og nálgun á stjórnmál hefur leitt til fullkominnar sóunar á tíma og hæfileikum og fé og leitt til þess að vinnuafli þessarar stofnunar hefur verið hleypt í uppnám og hæfileikum sem þar eru innan borðs.

Nú er ég ekki að segja að það kunni ekki að vera góð hugmynd á einhverjum tímapunkti að flytja stofnunina til Akureyrar og flytja stofnanir út á land, það getur vel verið að það sé góð hugmynd. En að gera það með gamaldagsvaldboði, á grundvelli hugmynda um lýðræði sem eru frá 1916 eða svo, það gengur ekki. Það leiðir einfaldlega til sóunar og sem betur fer voru þau áform stöðvuð, einfaldlega af heilbrigðri skynsemi. Umboðsmaður Alþingis bendir á að það þarf að stunda vandaða stjórnsýslu, það þarf að stunda samráð. Það er ekki bara krafa samtímans út frá því hvernig samtíminn er, það er líka, sem betur fer, bundið í alls konar öðrum lögum að það þarf að stunda vandaða stjórnsýslu.

Þetta frumvarp er að hluta til lagt fram í þeim tilgangi að laga til ákveðnar greinar í lögum um Stjórnarráðið eftir að þeim var breytt árið 2010 eða 2011. Það getur vel verið að þess hafi þurft og hluti frumvarpsins er einhvern veginn þannig að maður getur litið á það sem mjög skynsamlega tilraun til að betrumbæta. En svo eru þessi tvö ákvæði, að ráðherra fái valdið til að flytja stofnanirnar og skrifa siðareglurnar. Mér finnst þau stílbrot og mér finnst þessi atriði koma úr innstu kviku ríkisstjórnarinnar og vera vitnisburður um það, eins og ég hef rakið, hvernig hún almennt virðist vera að nálgast málin og mér finnst það vera áhyggjuefni.

Alþingi er gríðarlega valdamikil stofnun. Ef Alþingi væri einn maður þá mundi sá maður vera fullkominn einræðisherra, hann mundi ráða alveg fullt af hlutum. Hér liggja völdin, við höfum umboðið hér. Það er skynsamlegt að þessu mikla valdi er deilt niður á 63 einstaklinga sem koma úr ólíkum áttum; við erum fulltrúar ólíkra hópa. Þetta er skynsamleg meðferð á valdi. En það hefur alltaf verið tilhneiging, held ég, og það er sorglegt að sjá hana í svona ríkum mæli á Íslandi núna árið 2015, að einhverjir sem standa fyrir utan Alþingi, framkvæmdarvaldið, stundum dómstólar, í sumum ríkjum er þetta herinn, reyna að ásælast þetta vald, taka það til sín. Ég hef rakið hvernig það hefur verið reynt og er að gerast í stjórnartíð þessarar ríkisstjórnar.

Það að flytja til stofnanir, ákvæði um það að fá að flytja til stofnanir, kann að líta út sem sakleysislegt og sjálfsagt. Auðvitað eigum við að hafa ákveðinn sveigjanleika í stjórnsýslunni. Af hverju þurfa allar stofnanir að vera í Reykjavík? Getur ekki verið skynsamlegt að dreifa þessu út um allt land og slíkt? Er þetta ekki samt týpískt mál þar sem þarf að ræða við fólk og móta stefnu? Þarna er verið að tala um lífsviðurværi fólks. Það er verið að tala um fólk sem er með börn í skóla, búið að ákveða að búa einhvers staðar. Hagsmunirnir af því að flytja stofnunina, eru þeir svo brýnir að ráðherra þurfi endilega að geta ákveðið það í hvelli? Eru hagsmunir starfsfólksins ekki einmitt þannig að við eigum að sýna því þá virðingu að við tökum þetta til lýðræðislegrar umfjöllunar? Að lýðræðislega umfjöllunin sýni þá fram á að það sé kannski mjög brýnt að flytja þessa stofnun, er það ekki virðing við alla hlutaðeigandi og leiðir það ekki til þess að svona ákvörðun verður þá ekki eins og tundurdufl inn í stofnunina heldur verður hún tekin í sátt? Ég held að það sé hægt að flytja stofnun eins og Fiskistofu á löngum tíma eins og lagt hefur verið til í skýrslum. Það er hægt að nota starfsmannaveltuna til að gera það en ég held líka að við ættum að hafa fyrirkomulagið þannig, eins og við gerum í mörgum málum, að við gerum áætlun og ræðum hið almenna grundvallaratriði í málum.

Því er stundum fleygt að það sé gott að hafa stofnanir úti um allt land en ég hef aldrei orðið vitni að hinni mikilvægu grundvallarumræðu um það til dæmis hvaða stofnanir væri gott að hafa úti um allt land. Er ekki einhver greinarmunur þar á? Það er líka mikilvægt fyrir landsbyggðina að hafa öfluga höfuðborg. Það er ekki gott fyrir íbúa á Höfn í Hornafirði að stofnun sem hann þarf að sækja sé á Ísafirði. Það er ekki besta þjónustan við íbúa á Höfn. Það er líka hagsmunamál fyrir landsbyggðina að öflugar þjónustustofnanir séu á einum stað og séu þar sem miðstöð samgangna er. Það þarf að ræða þetta opinskátt. Við þurfum að ræða hvað við ætlum að fá út úr því, hvaða hagræðingu, hvaða bættu þjónustu, hvaða bættu stjórnsýslu við ætlum að fá út úr flutningi stofnana. Er þetta ekki týpískt verkefni til að fara í samráð við fólk, háskólana, akademíuna, fulltrúa atvinnulífsins, íbúa, Íslendinga, um það hvernig við viljum að þessum málum sé fyrir komið? Það mundi til dæmis koma í veg fyrir að við setjum starfsemi heillar stofnunar í uppnám í eitt ár út af einhverju bulli. Samráðið minnkar sóun. Það bætir nýtingu á hæfileikum, fé og tíma.

Þetta mál er allt saman að mínu viti — þó ekki allt saman, ég hef rakið það að þarna eru ákvæði sem eru allt í lagi og eðlilegar breytingar. Ég er til dæmis jákvæður í garð þess að hægt sé að flytja til starfsmenn innan Stjórnarráðsins og stofnana þess. Það getur vel verið að þá þurfi að gera breytingar á ráðningarferlinu að öðru leyti. Ég hef þá hugmynd um Stjórnarráðið og stofnanir þess að þetta eigi að virka sem einn vinnustaður eins og vinnustaðir gera almennt. Þegar maður er ráðinn sem blaðamaður á Fréttablaðinu þá er maður ráðinn til að gera eitthvað og svo kemur kannski í ljós að maður er betri í skrifum um eitthvað annað og fer þá af fréttadeildinni yfir á menningardeildina eða eitthvað slíkt. Þetta finnst mér líka að ætti að vera eðlilegt innan Stjórnarráðsins. Það getur vel verið að við séum ekki alveg þar en mér finnst hins vegar að það þurfi að virka þannig. Ég er jákvæðari í garð þeirrar breytingar en annarra enda er þar líka kveðið á um ríkt samráð við hlutaðeigandi aðila.

Það er svolítið stílbragð á frumvarpinu að það má flytja til starfsmenn innan Stjórnarráðsins og stofnana þess en það verður einungis gert með ríku samráði við alla aðila og allir aðilar þurfa að vera samþykkir, nema hvað. En hins vegar má flytja heila stofnun eitthvert án rökstuðnings og liggur við án fyrirvara út á land eða til höfuðborgarinnar, vegna þess að þetta virkar auðvitað í báðar áttir. Það finnst mér verulega undarlegt og vera vitnisburður um að þessi ákvæði um flutning stofnana séu meira sprottin af löngun ríkisstjórnarinnar til að stunda mjög gamaldags og groddalegt lýðræði þar sem völdin eru færð til meiri hlutans í allt of miklum mæli og samráð er litið hornauga.

Svo eru það siðferðisviðmiðin. Mér finnst þar í gangi alveg ótrúlegur grundvallarmisskilningur. Það er í sjálfu sér ekkert viðamikið verkefni að skrifa siðferðisreglurnar og búa þær til. Það er eitt. Ég efast ekkert um að það er kannski hægt að gera í forsætisráðuneytinu. Eitt er að skrifa siðareglur en annað er að efla traust á þeim og búa svo um hnútana að fólk fari eftir þeim og búa svo um hnútana að fólk telji almennt að þær hafi eitthvert gildi og fólk fari eftir þeim. Í þeim tilgangi er skynsamlegt að láta utanaðkomandi aðila sjá um utanumhald á siðareglunum og samhæfingu þeirra. Það minnkar traust á þeim og grefur undan þeim að láta sama aðila og á að fara eftir þeim annast umsýsluna með þeim, gerð þeirra og samhæfingu og eftirfylgni. Það er ótrúlegur galli en lýsir þessum megingalla á störfum ríkisstjórnarinnar yfir höfuð að hún skilur ekki lýðræðið, hún skilur ekki samráð, hún skilur ekki eðlileg samskipti og stjórnsýsluhætti á 21. öldinni.