144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:27]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta frumvarp er að mörgu leyti tákn um þá valdfrekju sem einkennir Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn á því skeiði sem við lifum og er bergmál af þeim tíma þegar þeir flokkar fóru um tólf ára skeið með landsstjórnina líka. Þá eins og er að verða hér á Alþingi líka núna má segja að löggjafinn hafi verið kominn undir hæl þáverandi forsætisráðherra. Það er alveg eins í dag. Það er engu líkara en hæstv. forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sé orðinn hinn raunverulegi þingforseti. Hann er farinn að stýra hér þingstörfum. Þessi valdfrekja, misskilningur á lýðræðinu, misskilningur á því hvernig ber að beita valdi meiri hlutans sem hv. þm. Guðmundur Steingrímsson rakti hér með afbragðsgóðum hætti. Hann birtist til dæmis í daglegu lífi okkar, mínu sem þingmanns á Alþingi í því að meiri hlutinn sem er núna beitir meðvitað valdi sínu til að koma í veg fyrir að tillögur sem stjórnarandstaðan hefur flutt sem hafa fengið hljómgrunn utan þings og hafa fengið jákvæða umsögn hjá öllum umsagnaraðilum ná ekki fram að ganga. Það er kúgun á minni hlutanum af hálfu meiri hluta.

Það breytir því ekki að hér erum við að tala um ákveðna grundvallarþætti og það sem liggur undir er meðal annars það sem mér finnst vera sanngjörn ósk, jafnvel krafa hjá þeim sem búa fjarri höfuðborginni að fá til sín aukinn hlut starfa, til dæmis þeirra sem verða til. Ég spyr hv. þingmann hvort hann sé mér ekki sammála um þá grundvallarafstöðu að landsbyggðin ætti í ríkari mæli að njóta starfa ríkisins og jafnframt hvort ekki séu leiðir til að tryggja það án þess að fara þá valdfrekjuleið sem speglast í þessu frumvarpi.