144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:33]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Jú, algjörlega. Ég held að með aðferðafræði og nálgun þessarar ríkisstjórnar hafi komið mikið bakslag í lýðræðisvakningu sem að minnsta kosti ég og hv. þingmaður upplifðum hér eftir hrun, og þjóðin öll. Ríkisstjórnin lagði lykkju á leið sína til að hætta eða setja út í horn eða ofan í skúffu ýmsa mikilvæga lýðræðisferla hérna sem voru í gangi. Ég rakti það í ræðu minni að það hefði bara verið rauður þráður, og ekki efnt til samráðs, markvisst ekki efnt til samráðs og ríkisstjórnin jafnvel ekki talið það skyldu sína, til dæmis á vinnumarkaði, og ekki efnt til samráðs þegar þess er augljóslega þörf. Þetta er því augljóslega stefnan og valdfrekjustefna, já, við höfum séð dæmi um það. Forsætisráðherra reyndi að flytja Fiskistofu með valdboði en rann auðvitað á afturendann með það vegna þess að ekki er hægt að gera svoleiðis. Menn reyndu að taka Reykjavíkurflugvöll (Forseti hringir.) og málefni hans til sín með einhverri gamaldagspólitík hér í upphafi vikunnar. Auðvitað varð þeim ekki kápan úr því klæðinu. (Forseti hringir.) Allir þessir tilburðir til þessarar valdfrekju eru hreinlega til þess fallnir að eyða tíma okkar hérna.