144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:35]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum afar góða ræðu, hann fór vel yfir það sem við höfum verið að kljást við eftir að þessi ríkisstjórn tók við og við höfum svo sem áður rætt í þessum ræðustól, þ.e. að draga til sín aukið vald og fella úr gildi allt það sem áður var gert og reyna svo að klóra í bakkann og koma inn með suma hluti aftur í eigin nafni til þess að hægt sé að segja: Við gerðum þetta af því að við megum og eigum. Það er þessi gamaldags valdboðsnálgun eins og við höfum verið að tala um. Mér fannst þessi upprifjun hv. þingmanns af hinu góða.

Í ljósi tilurðar þessa frumvarps, að minnsta kosti það sem varðar flutning stofnana, upphafið að því, spyr ég hvort þingmaðurinn telji að slíkt styðji við byggðastefnu, að framkvæma svona flutninga með þeim hætti sem hér var ætlunin að gera. Ég tek undir að það hefði verið áhugavert að fá að sjá lista yfir þær stofnanir sem hugsanlega væri hægt að hreyfa til að mati ríkisstjórnarinnar.

Svo er það hitt: Hvernig sjáum við það fyrir okkur að við aukum lýðræðisþátttöku okkar þingmanna gagnvart slíku ferli? Hvað eigum við að setja í lög, hvernig eigum við að stýra þessu, í hvaða formi, þannig að við getum tekið þátt í því hér og haft aukna aðkomu að þessu? Hvernig sér þingmaðurinn það fyrir sér? Það var af ásetningi sem þetta var tekið út á sínum tíma.