144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:41]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, tvímælalaust. Ég held að það sé eitt lykilatriði í þessu að það er vegið að sjálfstæði stofnananna. Að flytja til stofnun — það má alveg ímynda sér það sem einhvers konar hefndaraðgerð. Það er kannski sterkt að orði kveðið en við höfum séð stofnanir lagðar niður í kjölfar þess að þær hafa sagt eitthvað sem ráðherrum valdfrekjunnar var ekki að skapi. Maður getur alveg séð fyrir sér að þessu valdi til að flytja stofnanir eitthvert þangað sem ekki er gaman að vera — ég veit ekki alveg hvar það er á Íslandi, mér finnst gaman að vera alls staðar á Íslandi. En það má alveg ímynda sér þannig atburðarás þar sem þessu atkvæði er beitt í annarlegu skyni. Þess vegna er líka svo mikilvægt að svona ákvörðun sé bundin einhverju ferli sem gerir að verkum að þegar hún er tekin þá er hún hafin yfir þennan vafa og hafin yfir þessar grunsemdir.