144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:44]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hjartanlega sammála því að störfin geta verið víða og dæmi eru um vel heppnaðar aðgerðir á Íslandi sem hafa leitt til þess að störf á vegum mikilvægra stofnana eru hér og þar um landið; og svo er það líka þessi punktur að mikilvægar þjónustustofnanir séu sem næst þeim sem þurfa á þeim að halda.

Þar er pottur brotinn þegar kemur að heilsugæslu svo að dæmi sé tekið og alls konar slíkri opinberri þjónustu. Ég held að það sé mjög viðamikið verkefni sem þarf að fara í og ætti kannski að gera það undir hatti alvörubyggðaáætlunar eða eitthvað slíkt. Varðandi eitt lýðræðisverkefnið, sóknaráætlun landshluta — það var líka ágætisvettvangur, sem hefur að mestu verið lagður af, til að skilgreina hvað færi vel á að hafa hér og hvað færi vel á að hafa þar og þar fram eftir götunum. (Gripið fram í.)

En valdfrekjan já — fiskistofumálið er gott dæmi um það hvað núverandi hæstv. forsætisráðherra langar að vera valdfrekur en líka hvað honum er það blessunarlega um megn því að Fiskistofa verður ekkert flutt þrátt fyrir þessa tilburði. Það tók samflokksmann hans, hv. þm. Höskuld Þór Þórhallsson, hálfan dag að lenda í því sama, áform hans um að hrifsa skipulagsvald af þremur sveitarfélögum runnu út í sandinn á mettíma.

Tilburðir til valdfrekjunnar eru vissulega fyrir hendi. Ef það er eitthvað sem við ættum að hafa lært af rannsóknarnefndarskýrslum, af þingsályktunum um starfshætti Alþingis og af umræðunni eftir hrun er að við ættum að standa vaktina gagnvart tilburðum til valdfrekju.