144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:50]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs hér síðara sinni, fór yfir öll þau meginsjónarmið sem ég tel skipta máli í ræðu minni í gær, því að eftir að hafa fylgst með umræðunni finnst mér ástæða til að skerpa aðeins betur á þeirri heildarhugsun sem við sjáum í frumvarpinu. Hv. þm. Guðmundur Steingrímsson, sem talaði hér á undan mér, gerði það raunar að umtalsefni, þ.e. markmiðið með frumvarpinu. Hvert er markmiðið, hver er heildarhugsunin sem birtist í frumvarpinu til að ná því markmiði?

Það atriði sem hefur verið mest áberandi í umræðunni um málið er ákvæði 1. gr. um að ráðherra hafi heimild til að flytja aðsetur stofnana nema á annan veg sé mælt í lögum, og ekki er skilgreint, eins og ég fór yfir í fyrri ræðu minni, hvernig ákvörðun ráðherra á nákvæmlega að fara fram. Eins og frumvarpið stendur núna er það algjörlega á valdi ráðherra hverju sinni að taka slíkar ákvarðanir, honum ber ekki að hafa samráð um slíkar ákvarðanir, honum ber ekki að bera þær undir þingið, og þetta er gagnrýnt í áliti minni hlutans.

Af hverju viljum við geta flutt stofnanir til? Það er spurningin sem við hljótum að spyrja okkur. Hv. þingmenn, sem hér hafa talað, hafa flestir tekið nýlegt dæmi, fiskistofudæmið, sem dæmi um að vilji kunni að vera til þess að flytja opinberar stofnanir út á land. Þeir sem eru meðmæltir slíkum tillögum, þ.e. að ráðherra hafi slíkar heimildir, benda á að þær þurfi að vera fyrir hendi. Aðrir segja: Þetta þarf að vera betur afmarkað, betur skilgreint, þó að enginn hafi mælt á móti því að góð rök og málefnaleg kunni að vera fyrir því að flytja stofnanir, að dreifa opinberri starfsemi út um land.

Ef við horfum þá á heildarhugsunina, markmið laganna að einhverju leyti, þessarar 1. greinar — jú, það kunna að vera málefnaleg rök fyrir því að við viljum dreifa tiltekinni starfsemi út um landið, flytja stofnanir — er það þá ekki angi af einhvers konar byggðastefnu? Það var það sem hv. þm. Guðmundur Steingrímsson gerði að umtalsefni. Þá veltir maður því fyrir sér og það er raunar djúp sannfæring mín — eftir að hafa tekið þátt í umfangsmiklu verkefni á síðasta kjörtímabili, sem kallaðist sóknaráætlanir landshluta og var tilraun til þess að færa byggðastefnuna frá sérfræðingum að sunnan, eins og þeir eru stundum kallaðir, út til svæðanna, og þetta ferli var mér að minnsta kosti mjög lærdómsríkt.

Liður í þessu ferli voru svokallaðir þjóðfundir sem voru haldnir í einstökum landshlutum þar sem bæði mættu íbúar af svæðunum, líka fulltrúar helstu hagsmunaaðila, svo sem aðila vinnumarkaðarins, skólastofnana og annarra lykilstofnana á svæðunum. Þetta fólk settist niður og fór yfir sóknarfæri síns svæðis og ógnanir sem gætu steðjað að slíku svæði. Niðurstaðan varð aðgerðaáætlanir fyrir hvert og eitt svæði, sem ég lít svo á að hafi eiginlega myndað nýja byggðastefnu í landinu. Það komu líka upp þau sjónarmið að um leið og við værum á þessum almennu nótum, að gera áætlanir fyrir hvert svæði, þyrfti að taka sérstakt tillit til svokallaðra brothættra byggða og ráðist var í aðgerðir á því sviði. En allt miðaði þetta ferli að því að færa ákvarðanatöku nær heimamönnum á hverjum stað. Við eigum auðvitað langa sögu, og oft ekkert sérstaklega vel heppnaða, af byggðaaðgerðum sem hafa verið ákveðnar hér í Reykjavík, í ráðuneytum, þar sem ákveðið hefur verið að fara í einhvers konar verkefni, atvinnuuppbyggingu, oft mjög stór verkefni sem hafa átt að bjarga öllu. Við getum nefnt stóriðjuuppbygginguna fyrir austan, svo að dæmi sé tekið, en það eru líka mörg dæmi, smærri og stærri, um slíkar ákvarðanir sem eiga að verða til þess að styrkja byggð.

Þær hafa ekkert endilega byggst á svona ferli. Þær hafa ekki endilega byggst á lýðræðislegu ferli þar sem fólk kemur saman og ræðir hlutina: Hvað er það sem okkur vantar mest hér á svæðið? Mér fannst það mjög athyglisvert, herra forseti, af því að ég vissi kannski ekki nákvæmlega hverju ég ætti von á út úr þessum suðupotti, hvað það væri sem fólk vildi. Maður áttaði sig ekkert endilega á því. En það kom mér til að mynda ánægjulega á óvart að átta mig á því að forgangsatriði mjög víða úti um land voru menntatækifæri á svæðinu, að fólk hefði gott aðgengi að menntun á svæðinu. Atriði sem voru líka mjög ofarlega á blaði voru tæknin til að geta nýtt sér menntatækifæri, þ.e. háhraðatenging og fjarskipti; og sú tækni er líka algjört lykilatriði í allri atvinnuuppbyggingu nú til dags. Ónóg háhraðatenging var einmitt talin upp sem ein ógnin við ferðaþjónustu víða um land þannig að ekki væri hægt að reka slíka þjónustu með viðunandi hætti.

Samgöngur, fjarskipti, menntun — þetta voru hlutir sem stóðu upp úr hjá fólki. Það voru líka aðrir hlutir sem voru nefndir. Þarna vorum við að horfa á sóknartækifærin, ef við getum sagt sem svo, hver væru tækin til þess að geta skapað nýja sókn á svæðunum. Ógnanirnar voru til að mynda þær að grunnþjónusta væri óviðunandi, hvort sem er löggæsla, heilsugæsla eða slíkt, sem þyrfti að fara sérstaklega í að byggja upp. Þarna vorum við eiginlega að ræða bæði varnarleik og sóknarleik, en það var enginn að biðja um stórar lausnir að sunnan. Það var algjörlega sammerkt með öllum þessum fundum og niðurstöðum þeirra, það var enginn að biðja um neitt slíkt. Það sem fólk var að biðja um þegar það var sjálft spurt hvað það vildi gera: Tryggið innviðina. Ef það á að halda byggð í þessu landi þá þurfa að vera traustir innviðir um land allt þannig að fólk geti sjálft skapað sér sín tækifæri, ekki vantar hugmyndirnar. Það er alveg á hreinu, það vantar ekki hugmyndir til atvinnuuppbyggingar.

Af því að við erum dugleg hér að tala um ferðaþjónustuna og gildi hennar þá er það ekki síst vegna þess að fólk hefur verið að fylgja sínum hugmyndum, sínum draumum, með ýmiss konar rekstur til að þjónusta ferðamenn sem eru á ferð um landið, sem gerir það að verkum að það er gaman að koma á svæðið. Það er ekki bara náttúran sem er kannski helsta aðdráttaraflið. Þegar fólk er mætt á svæðið og horfir á náttúruna þá mætir því líka alls kyns þjónusta sem rekin er úti um land af því að fólk hefur nýtt tækifærin sem hafa verið í boði.

Þetta er það sem mér fannst merkilegt að átta mig á að þegar maður spyr fólkið sjálft þá koma kannski allt aðrar niðurstöður en þegar hlutir eru ákveðnir í ráðuneytum eða hér á þingi þar sem hugsunin er kannski sú að bjarga ákveðnu ástandi með einfaldri lausn, sem á að leysa allt. Setjum niður einn vinnustað og látum alla mæta þangað og þá er það málið.

Það er svipaður bragur á þessari hugmynd, jú, en markmið frumvarpsins er að við getum fært fleiri opinber störf út á land, sem er gott markmið, ég tek það fram. Þá er það ekki endilega gert þannig að einhver einn ráðherra eigi að geta tekið þá ákvörðun og skákað stofnunum til eins og peðum á taflborði til að bókhaldið líti betur út hvað varðar störf. Það þarf að huga að því hvar starfsemin á heima, hvað fólk er að biðja um. Þess vegna finnst mér þessi tillaga skjóta skökku við. Við erum með fjöldamörg dæmi þar sem fólk hefur einmitt verið að biðja um slík verkefni. Ég get nefnt dæmi úr skráningarverkefni á vegum Þjóðskjalasafns svo að dæmi sé tekið, mjög góð verkefni sem sköpuðu störf úti um land. Það hefur verið erfitt að fá fjármuni til að halda þessum verkefnum gangandi, sem eru samt mjög mikilvæg af því að gríðarlegt verk er óunnið. Við erum með fjöldann allan af slíkum verkefnum. Við höfum verið að sækja fjármagn til uppbyggingar ferðamannastaða sem er líka liður í atvinnusköpun úti um land.

Á aðra höndina erum við að horfa á niðurskurð á fjárveitingum til ýmissa slíkra starfa úti um landið, landvörslu svo að ég nefni enn eitt dæmi, en um leið er verið að setja hér inn algjörlega opna heimild til að geta svo fært önnur störf út á land án nokkurs samráðs við þá sem vinna innan þeirra stofnana, við þá sem eiga heima á viðkomandi stað; án þess að neitt slíkt ferli sé skrifað út.

Herra forseti. Ég sé að tími minn hefur liðið ansi fljótt í þessari yfirferð. En stóra niðurstaðan mín, eftir að hafa hlýtt á þessar umræður, er sú að hér er markmið sem ég held að við getum öll tekið undir, en tækið sem lagt er til byggir ekki á neinum lýðræðislegum ferlum. Þetta er fyrst og fremst opin heimild fyrir einn ráðherra til að taka ákvarðanir um flutning stofnana án þess að neitt slíkt sé skrifað út, hvernig nákvæmlega eigi að fara með þá heimild, hvernig taka eigi þessa ákvörðun og hvaða sjónarmið eigi að ráða. Á sama tíma höfum við horft upp á að allt það sem var unnið á síðasta kjörtímabili — hvað varðar sóknaráætlanirnar, sem ég fór hér yfir, ýmis slík smá og dreifð verkefni úti um land — hefur að megninu til verið tekið úr sambandi, þó að reynt hafi verið að bæta fjármagni í það smám saman aftur, af því að (Forseti hringir.) sveitarstjórnarmenn og íbúar úti um land allt hafa kallað eftir því.

Ég spyr mig því, herra forseti, hvort hægri höndin viti ekki hvað sú vinstri gjörir í þessari ríkisstjórn. Ég tel að þær tillögur sem hér eru undir þjóni ekki þeim tilgangi sem þeim er ætlað að uppfylla.