144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[19:03]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ef mig rekur rétt minni til held ég að núverandi ríkisstjórn hafi fengið rétt innan við 50% atkvæða í síðustu kosningum þó að hún hafi fengið hér meiri hluta þingsæta.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson ræðir meirihlutaræðið og það er auðvitað umhugsunarefni eftir þá miklu umræðu sem hér varð eftir hrun, eftir rannsóknarskýrslu þar sem farið var mjög ítarlega yfir stjórnmálamenninguna sem talin var ein af orsökum þess að hrunið varð hér jafn slæmt og raun bar vitni. Vissulega gengu Vesturlöndin gegnum kreppu en ekki má gleyma því hvernig aðstæður voru nákvæmlega á Íslandi, voru getum við sagt að nokkru leyti séríslenskar, stjórnmálamenningin einn hluti þess. Þar var sérstaklega rætt um meirihlutaræðið, hjarðhegðunina og allt sem því tengist.

Það er sláandi þegar maður heyrir forkólfa ríkisstjórnarinnar, hæstv. ráðherra, halda því fram að það þurfi ekki að ræða mál af því að meiri hlutinn ráði, að ekki þurfi að ræða mál af því að meiri hlutinn ræður. Þetta er mjög dapur skilningur á lýðræðinu, undirstaða lýðræðisins er samræðan, þar sem fólk tekst á og málin taka breytingum og þróast í samræðunni. Til þess erum við að eiga samræðuna þannig að við færumst nær einhverri góðri lausn. Þess vegna hef ég stundum talað fyrir því að það væri gott fyrir Ísland að hafa hér minnihlutastjórnir í tvö, þrjú kjörtímabil hreinlega til þess að við horfum upp á ákveðnar breytingar á stjórnmálamenningunni.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns um útibú veit ég að sumir hafa áhyggjur af því hugtaki af því að þeir telja að útibú séu þá fremur skorin niður en höfuðstöðvar og annað slíkt, en við höfum fjöldamörg góð dæmi þar sem það hefur ekki verið svo. Horfum til að mynda á breytingar hjá ríkisskattstjóra þar sem var farið í miklar breytingar sem hefur verið almenn ánægja með um hvernig (Forseti hringir.) þjónustustöðvum ríkisskattstjóra er dreift um landið með mikilli verkaskiptingu þar á milli. Þar er tæknin notuð til hins ýtrasta, þannig að jú, þrátt fyrir áhyggjur ýmissa tek ég undir þá heildarhugsun hjá hv. þingmanni.