144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[19:12]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir þessar athugasemdir. Ég tel rétt að taka fram að þegar við vorum að vinna að gerð sóknaráætlana var líka haldin sóknarþjóðfundur fyrir höfuðborgarsvæðið. Það sem kannski sló mig er að aðstæður eru mismunandi, ekki bara á milli landsbyggðanna og höfuðborgarsvæðisins heldur eru landsbyggðirnar ólíkar. Sumar eru í sókn og aðrar í vörn, svo að við segjum það bara eins og það er. Það voru því ólíkar aðstæður uppi. Þó fann maður fyrir því að hér á höfuðborgarsvæðinu höfðu menn ekki áhyggjur, svo að dæmi sé tekið, af framboði af menntun. Það átti heldur ekki við um alla landshluta, en sums staðar höfðu menn áhyggjur af því. Auðvitað eru aðstæður ólíkar.

Ég er hins vegar hjartanlega sammála hv. þingmanni um að byggðastefna á að snúast um landið allt. Höfuðborg er mikilvæg fyrir landið allt alveg eins og byggðirnar eru mikilvægar hver fyrir sig og líka sem heild. Það er mikilvægt fyrir landsbyggðina að hafa öfluga höfuðborg. Þess vegna eigum við að reyna að hugsa þetta í heild. Það er ekkert sem ég veit leiðigjarnara en þegar reynt er að grafa fólk í skotgrafir eftir því hvar það býr á landinu, því að þrátt fyrir allt erum við bara rúmlega 300 þúsund á þessu litla landi og það er svo margt sem við eigum sameiginlegt. Hins vegar verðum við að vera meðvituð um aðstöðumuninn sem felst í því að búa þar sem stjórnsýslan er, helstu menningarstofnanir, háskólastofnanir, það er auðveldara aðgengi að tækifærum, en þetta hlýtur allt að spila saman.

Þar hafa þessar stofnanir margar hverjar gert gríðarlega góða hluti. Ég nefni sem dæmi Háskóla Íslands og fræðasetur hans í kringum landið, mikilvæg uppistaða, sem (Forseti hringir.) gefa háskólanum og höfuðborgarsvæðinu ekki minna en háskólinn gefur landsbyggðinni í gegnum þessi setur. Þarna er algjör gagnkvæmni á milli.