144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[19:20]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er ágætt að fá tækifæri til þess að ræða aðeins betur um þetta mál þó að ekki sé nú hæstv. forsætisráðherra hér, sem gaman hefði verið að hafa, að minnsta kosti sumpart, við umræðuna, því að iðulega hafa menn haft áhuga á því að beina til hans spurningum. En hæstv. ráðherra hefur greinilega verið mjög önnum kafinn þessa klukkutíma sem við höfum verið að ræða þetta mál.

Ég held að vandinn sumpart við þetta frumvarp, sem er nokkuð skringilegt þegar farið er að skoða það betur, sé sá að það er samtíningur af eiginlega gjöróskyldum þáttum sem snúa að Stjórnarráði Íslands. Þetta er eitthvert uppsóp sem hefur orðið þarna á göngum forsætisráðuneytisins og efst í skúffuna hefur komið heimild til að flytja Fiskistofu til Akureyrar. Það er klætt hér í búning þess að ráðherra fái vald til að ákveða um aðsetur stofnunar sem undir hann heyrir nema á annan veg sé mælt í lögum.

Nú fylgir frumvarpinu engin greinargerð um það hvað víða er á annan veg mælt í lögum. Hver verður réttarstaðan ef þetta yrði nú samþykkt? Væntanlega er það þannig að Stjórnarráðið er með aðsetur í Reykjavík og Hæstiréttur og ugglaust fleiri stofnanir eru eftir sem áður með það bundið í lögum hvar þær hafi höfuðstöðvar. Þetta hefði nú til dæmis mátt fylgja frumvarpinu sem svona góð upplýsingamiðlun eða góður undirbúningur en gerir ekki. Auðvitað hefur maður þar af leiðandi velt því fyrir sér, ef þetta er aðaltilefnið og það er svo klætt í þennan búning að það séu svona sundurleitar breytingar, sumar mjög veigalitlar, á lögunum um Stjórnarráðið að öðru leyti til þess að þetta líti betur út kannski, engar þeirra brýnar að séð verður. Af hverju fluttu ráðherrar, flutti ekki ríkisstjórnin bara einfalt frumvarp um að þeir fengju lögheimildir til að færa höfuðstöðvar Fiskistofu til Akureyrar? Var það ekki einfaldara frekar en að þvæla því inn í þetta og í raun hreinlegra, því að þá var bara umræðan um það, kosti og galla þess, og hefði sjálfsagt hverfst mikið um hin ólánlegu vinnubrögð sem voru samfara upphafi þess máls?

Hæstv. ráðherra hefur í raun beðist velvirðingar á því, viðurkennt opinberlega að betur hefði mátt að þessu standa og hann er maður að meiri í sjálfu sér. Hann hefur bakkað niður í það að þessi færsla muni þá gerast yfir langan tíma og tillit verði tekið til hagsmuna starfsmanna og enginn verði beittur þrýstingi eða borið á neinn fé til að reyna að flytja. Þar með held ég að vandinn gagnvart því máli sé leystur. Og til þess að það fari ekkert á milli mála þá tel ég það ágætiskost að færa í áföngum þungamiðju starfsemi af þessu tagi, til dæmis til Akureyrar úr því að það varð þarna fyrir valinu. En það er aðferðin sem þar skiptir öllu máli og það hefur unnið þessum málstað ógagn að það séu réttlát sjónarmið að dreifa opinberri starfsemi um landið og ýmis starfsemi geti verið prýðilega staðsett og vel að henni búið annars staðar en í 101.

Hv. þm. Guðmundur Steingrímsson flutti hér athyglisverða ræðu og ég fór reyndar aðeins í andsvör við hann. Eitt af því sem hv. þingmaður tók upp í umræðunni var gagnstæða þessarar hugsunar um að dreifa opinberum umsvifum um landið, sem væri sú, og alveg réttilega, að það væri líka mikilvægt að hafa öfluga höfuðborg, vel skipulagða og öfluga höfuðborg þar sem æðsta stjórnsýslan væri á einum stað. Auðvitað eru fyrir því ýmis hagkvæmnisrök og það er enginn að tala um það að dreifa henni eða fara með þau embætti, stærstu og mikilvægustu, sem nánust eru hinu miðlæga valdi, eða höfuðstöðvar þeirra eitthvert annað. Ég hef engar hugmyndir heyrt, nema lauslega hér á göngum, um að flytja Seðlabankann vestur á firði eða Hæstarétt norður í land eða eitthvað svoleiðis, við erum ekki að tala um það. Við erum nú ekki að tala um fjarskyldari verkefni landsbyggðinni hér en þjónustustofnun við sjávarútveginn í landinu. Og er hún ekki prýðilega staðsett út af fyrir sig í einhverri af öflugustu sjávarbyggðum Íslands? Jú, það held ég, ef þar er hægt að búa vel að henni.

Sama hefur maður oft nefnt með stoðstofnanir landbúnaðarins. Það er auðvitað dálítið skrýtið að þær skuli vera í jafnríkum mæli hér á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur ekki einu sinni tekist að flytja leifarnar af Rannsóknarstofnun landbúnaðarins, RALA, upp á Hvanneyri enn þá. Bændur hafa valið að byggja upp sínar höfuðstöðvar allar hér, þær hefðu alveg getað verið annars staðar o.s.frv.

Þannig er háttað á Íslandi að 2/3 hlutar landsmanna búa hér á einum tiltölulega afmörkuðum hluta landsins, höfuðborgarsvæðinu. Það er meiri samþjöppun íbúa en við þekkjum víðast hvar annars staðar á byggðu bóli í Evrópu. Það er ekkert náttúrulögmál og þarf ekki að vera það að höfuðborgin sé stærsta borgin í landi eða að meira og minna öll opinber stjórnsýsla eigi að byggjast upp algjörlega miðlægt út frá sjálfri höfuðborginni. Hin sögulega, skemmtilega kenning er sú að þetta hafi að hluta til þróast svona á Íslandi vegna þess að kanselíið var flutt frá Kaupmannahöfn til Reykjavíkur og einhvern veginn varð það þar með sjálfkrafa að allt byggðist hér upp í kringum kanselíið þegar það var komið heim.

Sum lönd sem hafa staðið frammi fyrir því að skipuleggja sig að þessu leyti, til dæmis eftir nýlega fengið sjálfstæði, jafnvel stór lönd, hafa valið þá leið að staðsetja ekki höfuðborgina í stærstu borg viðkomandi lands heldur byggja nýja höfuðborg einhvers staðar miðsvæðis í landinu, frá grunni jafnvel, eins og Brasilía og Ástralía, sem byggðu borgirnar Brasilíu og Canberra upp sem höfuðborgir nánast frá grunni. Það voru miklu stærri borgir í Ástralíu, bæði Sidney og Melbourne, en þeir byggðu samt Canberra inni í landi dálítið miðlægt þar sem hún lá vel tengd til allra höfuðfylkja Ástralíu. Nýsjálendingar voru með höfuðstöðvar sinnar stjórnsýslu og í raun höfuðborg í stærstu borg landsins, Auckland, á fyrstu áratugum síns sjálfstæðis en fluttu hana svo til þess að hún væri miðlægari og betur staðsett í landinu til Wellington við sundið milli Norður- og Suðureyjar, og er þó Auckland líklega um tvisvar sinnum ef ekki þrisvar sinnum stærri borg en Wellington eða var að minnsta kosti á þeim tíma.

Ég nefni þetta nú hér, herra forseti, til þess svona aðeins að víkka sjóndeildarhringinn þegar við erum að tala um þetta, mér finnst það allt í lagi. Ég er ekki að leggja til að höfuðborgin verði flutt frá Reykjavík en ég hins vegar leyfi mér að hafa mínar skoðanir á því að það væri hægt að hugsa sér uppbyggingu og skipulag og búsetuþróun á Íslandi með býsna ólíkum hætti frá því sem þróast hefur. Og ég tel að þessi mikla samþjöppun byggðar og röskun byggðar víða um landið sé meinsemd. Ég tel það sóun á framtíðartækifærum og möguleikum og ég held að það tapist mikil verðmæti með hverri byggð sem tapast.

Þess vegna bið ég menn gjarnan að setja sig aðeins í spor þeirra sem búa annars staðar í landinu, eru skattgreiðendur rétt eins og aðrir og telja sig eiga sína kröfu til í fyrsta lagi opinberrar þjónustu og hlutdeildar í henni, aðgangi að henni, en líka í vissum skilningi að það styðji við búsetu og byggð og efli framtíðarmöguleika þeirra landsvæða og byggða þannig að eftir því sem hagkvæmt getur talist og skynsamlegt er, þá sé líka umsvifum hins opinbera dreift um landið. Það eru tveir þættir í því sem mér finnast veigamestir, það er annars vegar að nærþjónustan sé eins nálægt fólki alls staðar í landinu og mögulegt er og hún sé byggð upp þannig, og það eigi að vera markmið í sjálfu sér að draga úr miðstýringu hennar eða miðsetningu. Hitt er svo það að ýmis verkefni og umsvif ríkisins eru ekki svo háð staðsetningu sinni að það getur verið ágætishugsun að dreifa þeim og styrkja önnur og ná fram öðrum markmiðum sem menn eru að vinna með, til dæmis í byggða- og þróunarmálum með skynsamlegri pólitík af því tagi. Það hafa til dæmis Norðmenn gert nokkuð meðvitað og markvisst og ég nefndi dæmi um það í ræðu eða andsvari hér í gær eða fyrradag, þar sem þeir hafa til dæmis byggt upp öfluga höfuðstöð í Finnmörku, Tromsö, með öflugum háskóla og sjúkrahúsi sem er sérhæft í fjarlækningum o.s.frv. Þeir hafa staðsett langstærsta tækniháskóla landsins í Þrándheimi, höfuðstöðvar landhelgisgæslu sinnar í Bodö og mætti lengi telja. Ég hef ekki orðið var við annað, og ég fylgist sæmilega með norskum stjórnmálum, en að um þetta sé ágætissátt.

Eðlilega hefur mikið verið rætt hér um þennan flutning Fiskistofu, það hefur verið gagnrýnt, en ég held að það sé ágætt að viðra líka ýmis önnur sjónarmið sem eiga erindi inn í þessa umræðu ef við erum farin að tala um dreifingu opinberra starfa og umsvif og flutning stofnana almennt. Þessu vildi ég þá bæta hér inn í umræðuna, herra forseti, hefði getað sagt margt fleira en tíminn er víst búinn.