144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[19:32]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka það fyrst fram að ég hef tekið út fyrir það, eins og aðrir væntanlega, hvernig þetta hefur komið við starfsmenn Fiskistofu. Ég þekki margt gott fólk sem þar vinnur, hef átt samskipti við það á liðinni tíð og það má enginn skilja orð mín svo að ég sé að réttlæta á nokkurn hátt hvernig að þessu var farið. Farið var algjörlega öfugt fram úr rúminu og byrjað á öfugum enda og er ekki til eftirbreytni.

Hvernig glímum við við þetta í framtíðinni og hvaða lagarammi á að vera um þetta? Ein leiðin er sú að Alþingi þurfi að koma við sögu í hverju tilviki, það þurfi bara alltaf að leita heimildar Alþingis ef færa á til starfandi stofnun. Ég verð að vera hreinskilinn með það. Ég á dálítið erfitt með að fara að festa þá niðurstöðu Hæstaréttar í lögum, að vegna þess að stjórnarskráin kveður á um að Stjórnarráðið sé hér, þá þurfi lagaheimildir til að færa stofnanir frá höfuðborginni án þess að neitt segi um það í lögum, án þess að neitt sé sagt um hvar höfuðstöðvar þeirra séu í sjálfu sér, en það mundi þá ekki þurfa lagaheimildir til að flytja stofnanir til Reykjavíkur. Ég er ekki sáttur við að við skiljum við málið þannig.

Það sem mér sýnist alveg blasa við er að ein leið væri sú að þetta væri í sjálfu sér ekki bundið í lög, en hins vegar væri aðferðafræðin, ramminn um það ef ætti að færa aðsetur stofnunar eða hana í heilu, bundin í lög. Þá skyldi það gert svona og svona varðandi aðferðafræði, skilyrði sem þyrftu að vera uppfyllt, forsendur gagnvart starfsfólki, hvernig réttinda þess væri gætt o.s.frv. Það er auðvitað ein leið að segja sem svo: Jú, jú, ráðherrar mega koma með tillögur um að færa til einhverja starfsemi, en þá skulu þeir vesgú gera það samkvæmt þessum lögum, þessum ramma. Þá væri hægt að fyrirbyggja mörg slys í þessum efnum, held ég.

Önnur aðferð væri mögulega sú að flokka stofnanir upp (Forseti hringir.) og það tæki til stærri og mikilvægari stofnana, að þær væru ekki hreyfðar nema með sérstöku samþykki Alþingis, en þegar um væri að ræða minni stofnanir eða stofnanir sem væru tiltekins eðlis þá gæti það verið eitthvað frjálslegra.