144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[19:35]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið.

Ég vil spyrja út í nýja stofnun sem er verið að stofna sem mun geta tekið stjórnvaldsákvarðanir, sem er sameining Námsgagnastofnunar og Námsmatsstofnunar og síðan hluta af hlutverki menntamálaráðuneytisins. Þar eru stofnanir sameinaðar og hlutverki breytt og úthýst frá ráðuneytinu.

Í umræðum fyrr í dag var talað um að ekki væri síður verið að setja lagastoð undir þær breytingar með þessum breytingum á lögum um Stjórnarráðið. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann þekki eitthvað til um það, en það er stofnun sem nánast bara bíður eftir því að fara af stað, búið er að ráða forstöðumann og segja upp fólki og ég veit ekki hvað og hvað, en það virðist ekki vera lagastoð fyrir breytingunum.

Annað, ef hv. þingmaður vildi og hefði tíma til þess að koma að því að fella eigi burtu nefndina sem fjallaði um siðareglurnar, samhæfingarnefnd um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna, að ákvæði um hana séu bara sett í burtu. En eitt af mikilvægum hlutverkum þess, og ástæðan fyrir því að farið var í að setja þá nefnd á laggirnar og áhersla lögð á siðareglur var einmitt skortur á trausti og trúverðugleika eftir hrun á stjórnsýslunni. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki að þegar þetta er komið undir alræðisvald (Forseti hringir.) forsætisráðherra muni það aftur draga úr trausti frekar en að skjóta stoðum undir það.