144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[19:37]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég get alveg viðurkennt að ég er ekki sérfræðingur eða neitt sérstaklega vel inni í þessu með Námsmatsstofnun og Námsgagnastofnun, ég hef heyrt félaga mína og fulltrúa okkar í þingnefnd fara yfir þetta og hvernig það stendur. Það hefur vakið verulega undrun mína ef rétt er að hæstv. ráðherra sé búinn að auglýsa og ráða forstöðumann og kominn á fulla ferð með undirbúning og stofnunin nánast orðin til án þess að hann hafi lögheimildir til þess. Mér finnst það furðuleg stjórnsýsla. Ég undrast það hvernig hæstv. menntamálaráðherra sleppur með það, að hann skuli ekki vera farinn að fá meira bágt fyrir frá þeim aðilum sem væntanlega eru ekki sáttir við slíka framgöngu. Ég get ekki ímyndað mér að umboðsmaður Alþingis, Ríkisendurskoðun eða fleiri slíkir aðilar telji þetta til eftirbreytni.

Það þarf kannski að huga að 6. gr. frumvarpsins í því samhengi. Er hugsanlegt að menn fyndu skjól fyrir slíku framferði í þessari heimild til að setja á fót sérstakar starfseiningar og ráðuneytisstofnanir? Ég tók eftir því að hv. þingmaður var sjálfur að velta því fyrir sér hér í dag. Þó að slíkt kunni fljótt á litið að líta ágætlega út, að það geti verið ágætt að eiga kost á því fyrirkomulagi undir ráðuneyti, þá má náttúrlega ekki opna farveg fyrir einhverja geðþóttastjórnsýslu þar með. Eða væntanlega vill Alþingi ekki að ráðherrar geti þar með gert bara hvað sem er. Þeir geti hent verkefnum út úr ráðuneytinu eða sópað saman stofnunum og sagt bara af því þetta er undir ráðuneytinu, tilheyri því, þá megi þeir gera hvað sem er.

Varðandi hin siðferðilegu viðmið held ég að það sé mjög misráðið að fella niður samhæfingarnefnd um siðferðileg viðmið. Ég held að það dragi úr trausti á þessu. Það er líka ankannalegt að á nákvæmlega sama tíma og Alþingi, þ.e. öll forsætisnefnd og formenn þingflokka, leggur fram tillögur að siðanefndum fyrir alþingismenn þar sem fagleg siðanefnd, skipuð af utanaðkomandi sérfræðingum, á að vera í raun og veru úrskurðarvald um það hvort menn hafi gerst brotlegir við siðareglur, þá ætlar forsætisráðherra að leggja þessa (Forseti hringir.) samhæfingarnefnd niður á sama tíma og kippa þessu inn í ráðuneytið, sem sjálft er í vandræðum og klúðri með sínar eigin innri siðareglur (Forseti hringir.) samanber það að umboðsmaður Alþingis er að skrifa forsætisráðherra um það hvort hann hafi sett siðareglur.