144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[19:40]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fróðlega ræðu um uppbyggingu höfuðborga hér og þar. Ég gleðst yfir því að hann vilji ekki flytja Reykjavík enda held ég að það væri líklega svolítið viðurhlutamikið. Þó ég sé hér að gjalda varhuga við því sem mér finnst alltaf vera hér í þinginu — hv. þm. Svandís Svavarsdóttir orðaði það einfaldlega þannig að Framsóknarflokkurinn væri svolítið í þeim leik að efna til ófriðar hér á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. Mér finnst svolítið til í því. Auðvitað þarf að byggja allt landið og ekki spurning með það, en það verður náttúrlega að gera það með heildarsýnina í huga.

Hv. þingmaður talar um nærumhverfi og nærþjónustu, ég er sammála því öllu saman. Stjórnlagaráðið lagði til nálægðarreglu í sínum tillögum, ég held það sé kallað það. Þeir lögðu til að það yrði jafnt atkvæðavægi um allt land, en þeir lögðu til nálægðarreglu sem þýddi að valdið — þetta er kallað á ensku subsidiarity — að ákvarðanir væru alltaf teknar í nærumhverfinu.

Þá dettur mér í hug, það eru ekki bara stofnanir og svona, heldur er það líka valdið. Það var stungið upp á því hér — ég held það hafi verið hv. þm. Róbert Marshall sem kom með það hér í umræðunni um samgönguáætlun — að það væri miklu eðlilegra að sveitarstjórnir (Forseti hringir.) tækju ákvörðun, saman þá á landsvæðum, um samgönguáætlun (Forseti hringir.) út um hinar dreifðu byggðir frekar en að við værum að því hér í þingsal. Hvað (Forseti hringir.) segir hv. þingmaður um það?