144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

verkföll í heilbrigðiskerfinu.

[10:02]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Þótt samningar hafi náðst á stórum hluta vinnumarkaðarins standa enn víðtækar kjaradeilur í landinu. Hæst ber að ósamið er við um 20 þúsund opinbera starfsmenn og félagsmenn BHM hafa sumir hverjir verið í átta vikur í verkfalli. Við heyrum að mjög lítið gangi í þeim samningaviðræðum. Ástandið í heilbrigðisþjónustunni er orðið grafalvarlegt. Hjúkrunarfræðingar eru í verkfalli og sú staða bitnar á sjúklingum. Við heyrum síðan að þriðjungur geislafræðinga á Landspítalanum hefur sagt upp störfum. Við höfum séð hjúkrunarfræðinga sækja annað á undanförnum árum í vaxandi mæli. Ljósmæður virðast nú vera að gefast upp á ástandinu. Í síðustu viku einni saman sóttu 22 ljósmæður sér skjöl til landlæknis til staðfestingar á starfsréttindum til að geta sótt um leyfi til starfa í útlöndum. Þetta eru um 17% þeirra ljósmæðra sem starfa á Landspítalanum.

Við höfum ekki efni á að missa allt þetta fólk. Við þurfum það til að halda í opinbera heilbrigðisþjónustu sem stenst samjöfnuð við það sem best gerist í nágrannalöndunum. Það er grundvallaratriði fyrir okkur að líta á heilbrigðisþjónustuna sem eina heild. Það er búið að mæta launakröfum lækna, fyrir áramót, en það er ekki hægt að skella skollaeyrum við launakröfum annarra í heilbrigðisþjónustu sem geta líka valið sér starfsvettvang. Það er orðið mjög háðulegt að sjá ráðleysi ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) gagnvart verkfalli BHM og (Forseti hringir.) þeirri alvarlegu stöðu sem þar er komin upp.