144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

verkföll í heilbrigðiskerfinu.

[10:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það stenst einfaldlega ekki skoðun að íslenska krónan sé sjálfstætt vandamál. Við höfum haft lága verðbólgu og lækkandi vexti. Lærdómurinn sem við eigum að draga núna er sá að ef við höldum áfram á þeirri braut en ætlum okkur ekki um of í einhverjum leiðréttingum og kjarabótum í gegnum taxtahækkanir eða nafnlaunahækkanir þá getum við notið enn lægri vaxta og viðvarandi lágrar verðbólgu. Hins vegar er eflaust dálítið spennandi fyrir hina sem vilja losna við íslensku krónuna að hvetja til þess að laun verði hækkuð upp úr öllu valdi og svo fylgi verðbólga og háir vextir vegna þess að þegar upp er staðið munu menn stíga fram á völlinn og segja: Sjáið, þetta var allt saman íslensku krónunni að kenna. Það er ótrúlegur málflutningur, ótrúlegur rökstuðningur að beita. (Gripið fram í.) Staðreyndin í dag er sú að opinber fjármál setja ekki þrýsting á íslensku krónuna. Staðan í viðskiptalöndum er heldur ekki að setja þrýsting á íslensku krónuna, staðan í sveitarfélögunum ekki heldur. Það eina sem ógnar (Forseti hringir.) íslensku efnahagslífi hvað varðar verðbólgu og hærri vexti er (Forseti hringir.) staðan á vinnumarkaði. Það dugar ekki fyrir menn ef leiða á fram óábyrga kjarasamninga að koma þegar upp er staðið, (Forseti hringir.) eftir hærri verðbólgu og hærri vexti, og segja: Þetta var allt íslensku krónunni að kenna.