144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

staða láglaunahópa.

[10:15]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég ítreka það sem ég sagði hér áðan að ég hef skilið það þannig að í yfirlýsingu okkar setjum við okkur markmið, við setjum þak á húsnæðiskostnað, þ.e. segjum hversu hár við teljum að húsnæðiskostnaður eigi að vera í því kerfi sem við ætlum okkur að byggja upp hér. Já, ég get alveg sagt það hér að það er hlutverk mitt sem félags- og húsnæðismálaráðherra að beita mér fyrir því að lífeyrisþegar hafi það betra. Það er alveg skýrt í lögum um almannatryggingar hvernig bætur almannatrygginga eiga að taka breytingum; annars vegar er þar talað um verðlagsþróun og hins vegar um launaþróun, þannig að lagaákvæðin eru skýr hvað það varðar.

Síðan vil ég líka benda á að mjög mikil vinna hefur verið í gangi sem snýr að því að gera grundvallarbreytingar á bótaflokkum almannatryggingakerfisins. Sú nefnd fer vonandi að skila af sér tillögum um það hvernig hægt sé að grípa til aðgerða í kerfinu til þess að bæta kjör lífeyrisþega enn frekar. Það er því alveg skýrt í mínum huga að stjórnvöld ætla að halda áfram eins og við höfum verið að gera, að bæta stöðu lífeyrisþega eins og annarra þegna þessa lands.