144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

framhald þingstarfa.

[10:16]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég hef talsverðar áhyggjur af stöðu Alþingis, af verulegu skipulagsleysi sem ríkir nú í störfum Alþingis. Það er engin starfsáætlun og ekkert plan fyrirliggjandi um það hvernig á að ljúka þingstörfum. Þingi verður að ljúka svo að annað geti hafist, þannig er það nú.

Ég hef áhyggjur af því hvernig þingið birtist þjóðinni. Ég held að almenningur skilji ekki almennilega — mjög skiljanlega skilur hann það ekki almennilega, ég skil það stundum ekki sjálfur — hvað er að gerast hér inni og af hverju þetta þarf að vera svona. Ég held að það sé mjög mikilvægt að hefja nú djúpa samræðu um það hvaða undirliggjandi meinsemdir valda þessu ástandi ár eftir ár og valda þessu einstaklega slæma ástandi núna.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur lagt sitt af mörkum inn í þessa umræðu með færslu á fésbókarsíðu sinni um daginn um mögulegar breytingar á þingsköpum. Margt þar fannst mér mjög áhugavert og mundi vilja taka undir það, eins og til dæmis að mál lifi milli þinga. En mig langar svolítið að eiga huggulega, afslappaða umræðu í fallegu umhverfi — mætti kannski deyfa ljósin aðeins hérna? — um það: Af hverju gerist þetta? Af hverju erum við í þessu ástandi? Ríkisstjórnin vill fá einhver 74 þingmál í gegn, svo eru þingmannamál líka. Bara með hóflegum ræðutíma þingmanna endist okkur augljóslega ekki sumarið til að klára það, það þarf að semja um þetta einhvern veginn.

Hvert er hlutverk forseta Alþingis í þessum kringumstæðum? Hvað getur minni hlutinn gert til að liðka fyrir, hvað getur meiri hlutinn gert betur? Hvaða breytingar þarf að gera, hvað þarf að gerast núna til þess að liðka fyrir þingstörfum og fá einhverja skynsemi inn í þetta? Hver er sýn hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra á þessa stöðu núna, hvað þarf að gerast?