144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

staðan á vinnumarkaði.

[10:28]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Þá sé ég að það er kominn einn áfangi, efnahagsráð. Það væri þá mjög gott að fá að heyra í framhaldinu hverjir þessir áfangar eru. Eins og hæstv. ráðherra segir þarf að stilla þessa strengi saman. Væri það þá ekki partur af ferlinu að færa sig inn í ramma þar sem allir strengirnir eru stilltir á þann hátt að hinir strengirnir vanstillist ekki á meðan, ef einn strengur er stilltur þá vanstillist ekki hinir? Í þeirri vegferð sé að sjálfsögðu tekið tillit til þess að sumir verða að gefa eftir, það geta ekki allir fengið sitt; að í þessu ferli séu samningaviðræður um það hvernig ákveðnar stéttir fá einhverja leiðréttingu, að það séu svona heildstæðir samningar sem leiða okkur inn í þetta ferli.

Jafnframt langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvað hann hyggist gera varðandi verkföll heilbrigðisstarfsmanna. Landsmenn eru alveg skýrorðir um það í hvað þeir vilja að skattfé sitt fari. Í skoðanakönnun sem Píratar létu gera fyrir jól, í nóvember, sögðust 90% landsmanna vilja forgangsraða (Forseti hringir.) til heilbrigðismála í fjárlögum. Ég vil spyrja ráðherra (Forseti hringir.) hvort þetta sé ekki forgangsatriði í þessum (Forseti hringir.) heildstæðu nálgunum.