144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

sameining Iðnskólans í Hafnarfirði og Tækniskólans.

[10:31]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég var með beiðni um sérstaka umræðu varðandi það að leggja niður Iðnskólann í Hafnarfirði og setja hann undir Tækniskóla Íslands, en ég ætla að nota fyrirspurnatímann til þess að fara aðeins yfir það mál og raunar önnur sem hæstv. ráðherra hefur staðið að.

Varðandi það mál var gerð sérstök fýsileikakönnun. Gefinn var mánuður til þess að skoða ákveðið mál, bara sameiningu tveggja skóla. Ráðherra tók strax ákvörðun um að fara í það mál óháð öllu öðru, en þá kom í ljós að lítið sem ekkert samráð hafði verið haft við sveitarfélagið eða starfsmenn Iðnskólans í Hafnarfirði. Síðan kom lögfræðiálit í framhaldinu þar sem segir að þetta gangi ekki með þessum hætti, því sækja þurfi lagalega heimild á Alþingi til þess að sameiningin geti gengið eftir. Það kom í framhaldi af því þegar sameina átti Landbúnaðarháskóla Íslands og Háskóla Íslands, en hæstv. ráðherra var rekinn til baka með það mál. Við sáum bréf um sameiningar framhaldsskóla á Norðurlandi sem sent hafði verið til skólanna. Það var allt borið til baka. Þá vaknar upp sú spurning og gagnrýni og sú hugsun: Bíddu, á hvaða vegferð er hæstv. ráðherra með menntamálin okkar?

Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. ráðherra:

Í fyrsta lagi: Hefur ráðherra undirbúið það að koma með mál Iðnskólans í Hafnarfirði og Tækniskólans á Alþingi? Stendur til að fylgja þeirri ákvörðun eftir? Kemur ekki til greina að skoða aðra möguleika áður en tekin verður endanleg ákvörðun hér í þinginu?

Í öðru lagi: Hvernig sér hæstv. ráðherra fyrir sér að iðn- og verknámi og starfsnámi verði hagað á næsta ári? Það tengist þessu máli. Verið er að taka mikilvægar ákvarðanir. Hvaða aðrar sameiningar á skólum eru í skoðun?

Í þriðja lagi: Er það ætlun hæstv. ráðherra að reka menntakerfið, framhaldsskóla og háskóla, sérstaklega framhaldsskólann, á óbreyttri fjárveitingu eins og hún var eftir hrunið? Það hafa sáralitlar viðbætur komið. Komið hafa launahækkanir, komið hafa hækkanir vegna nemendaígilda, en það virðist eiga að mæta því fullkomlega með niðurskurði á fjölda nemenda. Það er auðvitað gríðarlegt áhyggjuefni.

Auðvitað eru það fleiri mál, meðal annars mál sem tengjast (Forseti hringir.) samþykktum í tengslum við kjarasamninga, sem varða menntamálin. Ekkert af því er til umfjöllunar á Alþingi.