144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[11:04]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir svörin.

Ég er alveg hjartanlega sammála hv. þingmanni um að gagnsæi er alveg gríðarlega mikilvægt til að skapa traust um þá ferla sem notaðir eru. Ég hef einmitt viðrað þá spurningu áður í andsvörum að í 10. gr. frumvarpsins er breyting á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins þar sem verið er að auka hreyfanleika starfsmannanna. Bent hefur verið á að þessi breyting muni minnka gagnsæið. Ég hef viðrað þær áhyggjur mínar að þetta geti haft slæm áhrif á stöðu kvenna á vinnumarkaði sem hafa bent á að aukið gagnsæi sé það sem gagnist þeim best til þess að standa til jafns við karla. Mig langar að heyra sjónarmið hv. þingmanns á því.