144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[11:06]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur prýðisræðu. Ég get um margt verið henni sammála þegar hún fjallar um viðmið og verkefni sem hægt er að setja af stað í stjórnsýslunni. Hún vék að meginefni og uppistöðu í ræðu sinni að 1. gr. sem mikið hefur verið talað um, þ.e. að ráðherra kveði á um aðsetur stofnunar sem undir hann heyrir nema á annan veg sé mælt í lögum, þessari lagastoð fyrir ráðherra að geta tekið slíka ákvörðun.

Mig langar að nálgast þetta út frá meginmarkmiði, spurninguna varðandi 1. gr. frumvarpsins, sem er að auka sveigjanleikann í stjórnsýslunni, í skipulagi stjórnsýslunnar og stjórnun mannauðs. Það er mikil þekking til staðar í stjórnsýslunni á mjög margbreytilegu og víðu sviði. Ef við gefum okkur það með þekkingarfyrirtæki þá skiptir þetta mjög miklu máli hvað varðar útvíkkun í þessum lagabreytingum, varðandi hreyfanleika starfsfólks sem hv. þingmaður kom inn á í sinni ræðu.

En mig langar að spyrja, ef við skoðum þetta út frá viðmiðum, skapalóni sem hv. þingmaður talaði um: Hvaða þarfagreining telur hv. þingmaður að þurfi að eiga sér stað? Og gefum okkur, óháð því hvort ráðherra hefur þessa heimild eður ei, að hann þurfi alltaf að virða lög um opinbera stjórnsýslu um meðalhóf og um málefnaleg rök fyrir því að taka slíka ákvörðun.