144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[11:12]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi varðandi siðareglurnar þá tel ég að eins og fyrirkomulagið er í dag — þar sem er nefnd, hópur manna, og ábyrgðin er dreifð á því að fylgja þeim eftir og fræða fólk um þær, á grundvelli þeirra — sé miklu heppilegra en að eitt ráðuneyti undir einum ráðherra sjái um það. Þess vegna tel ég að við séum að fara í ranga átt hvað það varðar og hefði miklu frekar viljað að við værum að dreifa ábyrgðinni á því. Þá næðum við að mínu mati betur markmiðinu sem hv. þingmaður nefnir hér, þ.e. að siðareglurnar verði hluti af daglegum athöfnum.

En varðandi störf án staðsetningar og þetta frumvarp — nei, ég tel að við ættum miklu frekar, í staðinn fyrir að vera með opinn tékka fyrir ráðherra að geta flutt stofnanir og störf hingað og þangað eftir hentisemi, að vera að ræða viðmiðin, undir hvaða kringumstæðum Alþingi teldi eðlilegt að það væri gert og hvernig Alþingi vildi almennt nálgast flutning starfa og staðsetningu starfa. Ég væri til í að við værum að ræða slíkt frumvarp hér frekar en opinn tékka.