144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[11:14]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður ræddi nokkuð 8. gr. frumvarpsins og ég vil aðeins inna hv. þingmann betur eftir því. Ég er reyndar sammála því sjónarmiði að þetta verkar torkennilega á mann, að nú eigi að leggja niður samhæfingarnefnd um siðræn viðmið í Stjórnarráðinu og færa það inn í forsætisráðuneytið og má nefna mörg rök fyrir því. Það er athyglisvert að þetta er alveg þveröfugt við það sem Alþingi sjálft hyggst gera í sambandi við sínar siðareglur, að skipa öfluga og óháða fagnefnd. Svo má líka benda á að forsætisráðuneytið hefur verið í ákveðnum vandræðum með þessi mál, samanber bréfaskriftir umboðsmanns Alþingis.

Ég hef aðeins verið að velta fyrir mér af því að hér hefur líka verið nefnt, án þess að ég hafi það kannski alveg í kollinum hvernig þau mál standa, að Ísland er ekki í allt of góðum málum þegar kemur að innleiðingu ýmissa aðgerða sem eru hugsaðar í því skyni að bæta siðferði og draga úr líkum á spillingu. Við getum kallað það bara einu nafni spillingarvarnir. Við erum að fá gagnrýni og athugasemdir fyrir seinagang í sambandi við að innleiða evrópska samninga og bókanir frá Evrópuráðinu, OECD og ýmsum nefndum. Þetta er auðvitað svolítið samhangandi finnst mér, sem sagt, siðareglur og siðræn viðmið í stjórnsýslu hér innan lands og líka hvernig Ísland stendur að þessum málum í samstarfi við önnur lönd. Þess vegna hef ég velt fyrir mér hvort það væri hugmynd að fara alveg í öfuga átt og efla starfsemi einhverrar nefndar eða einingar sem hefði jafnvel breiðara hlutverk í þessum efnum en það eitt að horfa til siðrænna viðmiða í stjórnsýslunni, veita ráð og eftir atvikum hugsanlega fella úrskurði um það ef þær reglur eru brotnar. Alþingi er þó að reyna að gera það í sinni nálgun að (Forseti hringir.) komist sé að niðurstöðu um það hvort menn hafi gerst brotlegir við siðareglur og þá hafi það að minnsta kosti þær afleiðingar að sú niðurstaða sé birt.