144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[11:16]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er algerlega sammála hv. þingmanni. Ég held að við séum að fara í ranga átt. Ég held að við ættum frekar að vera að styrkja umgjörð þeirrar nefndar sem hefur verið að störfum og það má þá gjarnan breikka starfssvið hennar.

Maður spyr sig líka: Ef það er þannig að menn vilja í alvörunni vera með siðareglur sem fólk hefur trú á, ég ætla mönnum ekki það að þeir séu með þessari breytingu að ætla sér einhvern veginn að finna leið til að komast hjá því að starfa samkvæmt siðareglum, ég er ekki að því. Það sem ég er hins vegar að segja er að ef menn vilja að það að siðareglum sé fylgt sé svona nokkuð hafið yfir vafa þá er betra að hafa dreifða ábyrgð á eftirfylgninni með þeim í svona nefnd heldur en undir hatti á einu ráðuneyti sem hefur pólitíska stýringu. Þetta er bara svo gerólík nálgun. Ég tel miklu eðlilegra að það sé ákveðin nefnd sem geri það. Í athugasemdum um 8. gr. frumvarpsins er fjallað um 25. gr. laganna sem lagðar eru til breytingar á. Þar segir að meginhlutverk nefndarinnar hingað til hafi verið „að stuðla að mótun siðferðilegra viðmiða í formi siðareglna, kynna slíkar reglur, efla umræðu um þær og veita ráð um túlkun þeirra, fylgjast með hvort farið væri eftir siðareglum og eiga samstarf við aðra aðila hér á landi og erlendis sem starfa á svipuðu sviði.“

Núna þegar reglurnar eru til, nefndin hefur kannski ekki enn þá mótað þær sem slíkar, þær eru komnar í nokkuð gott horf, þá mætti þyngjast á hinn hlutann, þ.e. þetta samstarf við erlenda og innlenda aðila, og eftirfylgniþátturinn í staðinn fyrir að taka bara af henni verkefnið. Það þykir mér undarleg nálgun og mér finnst miklu eðlilegra að nefndin haldi áfram.