144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[11:18]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að vera sammála hv. þingmanni um það. Ég hef aðallega verið að velta þessum þætti fyrir mér í gær og fyrradag og er eiginlega alltaf meira og meira hugsi yfir því að þetta skuli vera borið fram í stjórnarfrumvarpi af hæstv. forsætisráðherra. Það eru svo margir árekstrar sem maður sé þarna. Þar á meðal þeir að forsætisráðuneytið, sem fer með verkstjórnina innan Stjórnarráðsins, hefur það hlutverk að úrskurða um ágreining ef upp kemur milli ráðuneyta eða ráðherra, kveða upp úr um það hvernig beri að túlka forsetaúrskurð um verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins og ýmis önnur vandasöm mál sem oft geta verið viðkvæm í samskiptum, að það sé svo líka einhver siðferðisvörður innan Stjórnarráðsins. Ég hef miklar efasemdir um þetta. Nefndin sem sjálfstæður aðili, það er fullkomlega eðlilegt að hún hafi haft í sínum samþykktum að eiga náið samráð við umboðsmann og Ríkisendurskoðun. En forsætisráðuneytið, (Forseti hringir.) oddviti framkvæmdarvaldsins, ætlar hann þá að fara að vinna þessi mál með stofnunum sem heyra undir Alþingi? Það eru ýmis álitamál sem er ósvarað í þessu.