144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[11:20]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem hv. þingmaður kom inn á hér í lokin, að oddviti framkvæmdarvaldsins væri að fara að vinna að þessum málum með stofnunum sem heyra undir Alþingi, er nefnilega mjög athyglisverður punktur. Ég sakna þess að menn hafi fjallað um það eða tekið á því með einhverjum hætti í starfi nefndarinnar. Ég vona að menn séu tilbúnir að taka það til skoðunar á milli umræðna og séu tilbúnir að taka það aftur upp í nefndinni.

Ef við gefum okkur að ástæðan fyrir þessu sé sú að menn telji að markmiðið með þessu sé að einfalda stjórnsýsluna með einhverjum hætti, það er eitt sjónarmið, þá þurfum við líka að spyrja okkur hvort vegur þyngra að ætla að einfalda bara til að einfalda eða það að vera með kerfi sem eykur frekar tiltrú á ákvarðanatökunni en hitt. Ég tel að það vegi miklu þyngra. Það er ekki svo (Forseti hringir.) flókið kerfi að vera með nokkra aðila í nefnd til að fylgjast með þessu (Forseti hringir.) en að hafa verkefnið í einu ráðuneyti (Forseti hringir.) þannig að ég hvet til þess að menn endurskoði þessa ákvörðun.