144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[11:40]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Ég notaði tímann á meðan hann talaði og ég hlustaði á hann til að rifja upp þær umræður og breytingartillögur sem voru settar fram á árinu 2011 þegar við í allsherjarnefnd fórum í gegnum þau lög sem nú er verið að gera breytingar á. Það voru margvíslegar breytingartillögur sem voru fluttar við málið. Í nefndinni sátum ég og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir sem hér er stödd í salnum og fleiri, t.d. þáverandi þingmaður Þráinn Bertelsson, sem kom með breytingartillögu um það að hljóðrita bæri alla ríkisstjórnarfundi sem því miður var síðan tekið út en hefði betur verið haldið inni, held ég.

Mig langar að spyrja út í þær breytingar sem verið er að gera á 6. gr. núgildandi laga. Í henni er verið að færa til orðalag, gera breytingar á því sem telst til mikilvægra stjórnarmálefna og þess sem færa ber til bókar o.fl., um samskipti ráðherra við aðila utan ríkisstjórnar, innan Stjórnarráðsins o.s.frv. Þetta eru gríðarlega mikilvægar upplýsingar. Mikilvægt er að það sé skráð nákvæmlega niður hvaða samskipti eiga sér stað, hvað telst til stjórnarmálefna. Mér dettur eitt nýlegt dæmi í hug, til dæmis þegar kemur að samskiptum forsætisráðherra við aðila sem mögulega eru að standa í kaupum á fjölmiðlum. Varðar það ekki almenning? Hvað með hæstv. forsætisráðherra, er hann að beita sér fyrir (Forseti hringir.) eigendaskiptum á fjölmiðlum o.s.frv.? Er einhver skráning sem fer fram um slíkt? (Forseti hringir.) Hvaða heimtingu á almenningur að slíkum upplýsingum? (Forseti hringir.) Mig langar að spyrja hv. þingmann um þessi efni.