144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[11:42]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er í 2. gr. lagafrumvarpsins en þar segir: „Eftirfarandi breytingar verða 6. gr. laganna: a. Við 2. tölulið 1. mgr. bætist nýr málsliður sem orðast svo: Til mikilvægra stjórnarmálefna teljast jafnframt m.a. upplýsingar um fundi sem ráðherrar eiga …“ En á sama tíma fellir 2. gr. út 2. mgr. 6. gr. núgildandi laga. Í 2. mgr. þeirrar greinar segir að á ríkisstjórnarfundum skuli skýra frá fundum þar sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar koma sameiginlega fram gagnvart aðilum o.s.frv.

Ég var ekki búinn að skoða þetta það vel að ég geti sagt hvort verið sé að fella allt inn, og það var einmitt það sem ég nefndi í ræðu minni þegar talað er um aukna upplýsingagjöf, að það sé eitt af markmiðunum með þessu frumvarpi. Ég þekki ekki nógu vel starfshættina í Stjórnarráðinu sjálfu og ég var ekki búinn að kafa nógu djúpt ofan í það þegar verið er að fella út 2. mgr. 6. gr. en færa eitthvað svipað inn, bæta því við 2. tölulið 1. mgr., hvort það færist allt með eða hvort þetta er undanskilið. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að ég er oft á gula takkanum vegna þess að djöfullinn leynist í smáa letrinu, hann leynist í þessu eina orði þarna sem var breytt, sem breytir öllu, en manni getur yfirsést. Ég get ekki svarað þessari spurningu.