144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[11:47]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni fyrir prýðisræðu. Hann kom inn á 8. gr., sem fjallar um siðareglur, og 1. gr., sem fjallar um heimild ráðherra til að ákvarða um aðsetur stofnana.

Ég vil aðeins bregða út af vananum áður en ég kem að andsvari og blanda mér í umræðuna sem var hér í síðasta andsvari milli hv. þm. Róberts Marshalls og hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar og benda á að í breytingartillögum með nefndaráliti meiri hluta hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar segir:

„4. gr. orðist svo:

1. mgr. 11. gr. laganna orðast svo:

Færa skal skrá um formleg samskipti og fundi, sem og óformleg samskipti ef þau teljast mikilvæg, milli ráðuneyta Stjórnarráðsins sem og við aðila utan þess.“

Þó nokkuð var fjallað um þessi samskipti í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, og meðal annars fyrir atbeina hv. þm. Birgittu Jónsdóttur; samtökin IMMI komu með mjög gagnlegar umsagnir sem leiddu til þessarar breytingartillögu.

Að andsvari varðandi 1. gr. Ég veit að hv. þingmaður er mikill áhugamaður almennt um stjórnunarfræði og skipulagsfræði og talaði um að við værum að fara í átt til miðstýringar frá dreifstýringu. Ég deili þessum áhuga með hv. þingmanni en horfi á þetta þannig að við séum að færa saman vald og ábyrgð, að ábyrgð og vald fari saman. Hvað vill hv. þingmaður segja um þá fullyrðingu?