144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[11:51]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég horfi á þetta sem stjórnarathöfn framkvæmdarvaldsins. Þá er mjög mikilvægt að þeir sem taka slíkar ákvarðanir hafi vald til þess og beri jafnframt ábyrgð á því. Ef við tökum fiskistofumálið sem dæmi, það hefur verið mikið til umfjöllunar, hefðu starfsmenn Fiskistofu, óháð því hvort þessi heimild hefði verið til staðar í lögunum eður ei, alltaf haft þá leið sem þeir fóru með kvörtun til umboðsmanns og lög um opinbera stjórnsýslu hefði alltaf þurft að virða.

Hv. þingmaður kom inn á siðareglur þingmanna og kjarni í siðareglum er fræðsla og samráð, að það séu þessi viðmið. Í siðareglum þingmanna eru hátternisskyldur, 5. gr. Er ekki mikilvægast (Forseti hringir.) að við hv. alþingismenn fjöllum um og fræðumst og vinnum með þessar hátternisskyldur og siðareglur frekar en að einhver nefnd sé að (Forseti hringir.) túlka það hvort við förum eftir þeim eður ei?