144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[12:01]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mig langar að byrja á því að hvetja alla þingmenn og þá sem fylgjast með störfum þingsins til að fara svolítið yfir ræðuna sem var hér á undan um siðareglur, sem hv. þm. Jón Þór Ólafsson flutti rétt í þessu. Mér finnst það gríðarlega mikilvægt því að lítið hefur verið fjallað um nákvæmlega þennan anga frumvarpsins hér í þingsal. Það eru að sjálfsögðu mjög skiptar skoðanir um siðareglur því að það er jafnvel réttmæt gagnrýni að siðareglur ættu ekki endilega að erfast, en það ætti aftur á móti að vera fyrsta verk hvers þess sem tekur við embætti að tryggja að nýjar siðareglur eða fyrri siðareglur séu samþykktar og ekki sé neitt loðið í kringum það eða látið liggja í einhverri móðu eins og hefur verið núna með forsætisráðuneytið og siðareglur þær sem ráðuneytið starfar eftir.

Ég vil taka undir orð þeirra sem hafa fjallað um þetta tiltekna frumvarp, um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, að hér erum við að horfa upp á mjög mikla afturför að mörgu leyti. Frumvarpið er mjög margslungið og fjallar ekki einvörðungu um það sem mest hefur verið rætt, sem er 1. gr. frumvarpsins. Þetta er afturför af því að við erum að hverfa inn í tímann sem var, hefðin fyrir hrun á síðasta kjörtímabili, en eftir hrun var gert töluvert mikið í því að viðhafa meira gagnsæi og búa til ábyrgðarkeðjur innan stjórnsýslunnar. Mér sýnist mikið af því starfi, sem að sjálfsögðu var nýtt og fyrir vikið ekki búið að hefðahelga, vera að fara forgörðum, því miður.

Mig langar líka að vísa í orð, mér finnst það mjög mikilvægt af því að ég er mikill áhugamaður, sem og Píratar, um að vita nákvæmlega hvernig lög eru búin til, hvernig nákvæmlega lögum er breytt. Það þarf að koma upp einhvers konar kerfi eða forriti, nú þegar er hægt að gera þetta með því að bera saman lög, en oft eru lagabálkarnir mjög flóknir. Ég minnist þess þegar breytingar á frumvörpum um upplýsingalög komu hér inn á þingið þá voru einmitt töluvert miklar breytingar á orðalagi sem gjörbreyttu í raun og veru eðli frumvarpsins. Því er svo mikilvægt að hafa alltaf í huga varðandi lagasetningu og breytingar á lögum sérstaklega, sem koma úr ráðuneytunum til þingsins, að djöfullinn liggur í smáatriðinu, þó maður noti kannski annað orðalag, maður þarf að huga sérstaklega að smáatriðinu, þeim eina bókstaf sem er breytt. Ég vil fyrir mína parta vita hvað er í lagapulsunni. Ég vil vita nákvæmlega hvað er í lagapulsunni, einfaldlega vegna þess að ef enginn vill vita hvað er í pulsunni eða hvernig lögin eru samsett, þá getum við ekki fengið betri pulsur eða betri lög. Og ef pulsan er með svo slæmt innihald að enginn mundi vilja borða hana ef fólk vissi um innihaldið, þá er eitthvað meiri háttar mikið að. En mér finnst þetta góð myndlíking og hef heyrt hana oft áður varðandi lagapulsurnar. Svo að því sé til haldið til haga þá tel ég að þetta frumvarp sé einmitt ekki til þess að hjálpa til við að vita hvert innihald lagapulsunnar er.

Ein leiðin til að gera betri lög er að vita um grunn þeirra og anda, en síðast en ekki síst nákvæmlega um hvern einasta bókstaf, hvert einasta orð, hverja einustu setningu og þær breytingar sem á þeim verða, einfaldlega vegna þess að einn lagabókstafur getur breytt gríðarlega miklu fyrir þess vegna alla í landinu, því að allir búa við lög og þurfa að fara eftir þeim.

Mig langar í þessu samhengi að benda jafnframt á, svo því sé haldið til haga ef það hefur ekki komið nægilega skýrt fram í ræðu minni, að þó svo það sé ekki tekið með í nefndarálit minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar mikilvægi þess að styðja við breytingu á liðnum er fjallar um skráningu upplýsinga, þá tökum við að sjálfsögðu heils hugar undir þær breytingar, enda kom það fram mjög snemma þegar rætt var við ráðuneytið, um leið og þetta var kynnt í raun og veru fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, að mistök höfðu verið gerð.

Ástæðan fyrir því að ég tók eftir þessum mistökum, það var nú upprunalega hv. þm. Róbert Marshall sem benti mér á þetta, ég og fleiri fórum síðan að skoða þetta betur og þar var um smávægilega orðabreytingu að ræða sem hefði mjög mikil áhrif ef því hefði verið viðhaldið. Þess vegna er svo mikilvægt, forseti, svo gríðarlega mikilvægt að alltaf þegar við erum að breyta lögum að ferlið í kringum það sé vandað og okkur þingmönnum sé gefinn nægilegur tími til þess að fara yfir allar breytingar í nánu samstarfi við grasrótarsamtök, einstaklinga og aðra aðila sem eru mjög vel inni í viðkomandi málaflokki.

Í ljósi þess að við erum að tala um orðalag og ýmiss konar lög þá finnst mér vera mikil tilhneiging að breyta orðalagi á þann hátt að erfitt er að sjá það, tilhneiging sem kemur úr ráðuneytunum. Ég legg því til, forseti, að hafin verði sú vinna og sú venja að það sé algert gagnsæi um það hver skrifar hvaða hluta laganna sem við fáum til umfjöllunar í Alþingi. Mér finnst það mjög mikilvægt. Það hefur aukist að brugðist hefur verið við þeim kröfum hjá annarri stjórnsýslu í heiminum og mér finnst ekkert að því að við vitum hvað hver skrifar í lögunum sem við eigum að fjalla um.

Ég hef orðið þess áskynja að það er líka tilhneiging til þess að skilja ekki alveg hjá mörgum ráðherrum mikilvægi lagabókstafsins af því að við búum hér við bókstafstrú á lögum. Það er þannig að lögin eru túlkuð út frá bókstaf en ekki út frá anda laganna. Þetta var gagnrýnt mikið í kringum uppgjörið í kjölfar hrunsins. Til dæmis talaði einn tiltekinn ráðherra hér, hæstv. umhverfisráðherra, um að milda orðalag í lögum, að milda orðalag í lögum án þess að kæmi nokkur haldbær skýring fyrir því. Til hvers? Hver er tilgangurinn með að milda orðalag í lögum? Maður skilur ekki svona hugmyndafræði.

Mig langar síðan að nota tækifærið, fyrst við erum að tala um þessi litlu atriði, og segja að mér finnst allt of algengt að fram komi verulega miklir gallar í lögum og túlkun á lögum. Til dæmis hefur komið fram að fjölmiðlalögin, sem eiga að fjalla um gagnsæi á eignarhaldi um fjölmiðla, eru ekki nægilega sterk af því að ekki er hægt að fá upplýsingar um það hver lætur viðkomandi aðila sem kaupir fjölmiðil fá til dæmis lán til að geta fjárfest í fjölmiðli. Mér finnst að bregðast þurfi við slíku miklu hraðar. Þegar fram kemur að gallar eru í lögum þá eigum við að bregðast við lagagöllum samstundis. Það er ekki mjög flókið. Við þyrftum að setja í gang eitthvert slíkt ferli í staðinn fyrir að fara í svo róttækar afturfarsbreytingar eins og þetta frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands felur í sér.