144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[12:14]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég er ekki hrifin af þessari aðferð og hún stríðir í raun gegn öllu því sem ég stend fyrir sem þingmaður og talsmaður aukins gagnsæis um lagasetningu. Mér finnst mjög vont þegar verið er að setja það sem maður gæti kallað einhvers konar laumufarþega með í lagasetningu. Maður hefur oft séð þetta. Ég gleymi því ekki fyrst þegar ég kom inn á þing og einhver var að tala um bandorma og önnur skrýtin orð um lög, þar sem verið væri að flétta saman einhverri rosalegri hrúgu af lögum og engin leið að fylgjast með því nákvæmlega hvað var í þessum bandormslagasetningum. Ég óttast það — einmitt út af því að við höfum ekki talað um allar greinarnar, eðlilega hefur fókusinn verið á 1. gr. — að hér séu að fara í gegn lög, eins og kom fram í ræðu minni, þar sem farið sé með mjög marga hluti aftur á bak.

Ég vona bara að við getum fengið að fresta þessari lagasetningu og farið betur yfir álitaefni, sérstaklega í kringum siðareglurnar. Sem betur fer var tekið tillit til breytingartillögu varðandi upplýsingakaflann, en það var bara út af því að svo vildi til að það voru nokkrir þingmenn sérstaklega með fókus á það að leita alltaf eftir öllu í lögum um upplýsingalög. Þannig að ég tel mjög brýnt að miklu nánar og ítarlegar sé farið yfir allar hinar greinarnar. Ég hef áhyggjur af því bara almennt sé að við séum að samþykkja lög hér á Alþingi sem eru með alls konar tilbera í sér.