144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[12:16]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég held að við deilum nokkuð skoðunum í þessu, ég og hv. þingmaður. Mig langar þó að biðja hana að útskýra fyrir mér eitt atriði sem hún nefndi, af hverju það ætti að vera betra. Hún segir: Við þurfum að fá að vita hverjir skrifa lögin. Það hefur farið gífurlega í taugarnar á mér þegar sagt er að þessi eða hinn hafi skrifað lögin. Það eru náttúrlega þingmenn sem samþykkja lögin. Við hljótum, jafnvel þó við fáum eitthvert flókið atriði fyrir okkur, alltaf á endanum að vera ábyrg fyrir því sem við samþykkjum. Þó að djöfullinn leynist í smáatriðunum þurfum við líka að takast á við það og afla okkur þeirra upplýsinga sem með þarf.

Hv. þingmaður bendir oft á atriði sem mér eru ekki alveg augljós en svo ef þau eru útskýrð fyrir mér þá skil ég það betur. Auðvitað skil ég vel að það skipti máli að LÍÚ skrifi ekki fiskveiðistjórnarlögin. En það breytir því ekki að á endanum ber Alþingi ábyrgð á því sem frá því fer. Ef hún gæti aðeins útskýrt þessa hugsun sína svolítið betur fyrir mér.