144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[12:18]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Það er einfaldlega þannig að maður er einmitt meðvitaður um að LÍU og aðilar í fjármálageiranum til dæmis hafa komið að því að veita ráðgjöf eða skrifa ákveðna hluta lagasetningar sem eftirlit með þeim tilteknu aðilum féll undir. Það hefur komið fram að þannig hafi málum verið háttað. Þess vegna finnst mér mjög mikilvægt að maður viti hver skrifar hvað þó svo að við á Alþingi berum á endanum fulla ábyrgð á því sem er samþykkt hér, í það minnsta ef maður situr á græna takkanum. Þá getur maður fylgst sérstaklega með þeim hluta laganna og látið sérfræðinga kanna sérstaklega þann hluta laganna, að ekki sé verið að setja grá svæði inn í lögin sem gætu gagnast þeim sem fengnir voru til ráðgjafar án þess að maður viti af því. Í öllum skuggum getur þrifist spilling. Ég er ekki að segja að spilling þrífist alltaf í skuggum, en möguleikinn á því er alltaf fyrir hendi. Þess vegna er ég mikill talsmaður gagnsæis.

Ég er líka talsmaður þess að við færum hið raunverulega lagasetningarvald meira til Alþingis og að við höfum miklu frekari aðkomu að því og hér fari fram grunnvinnan að lagasetningu. Ég geri mér grein fyrir því að það er ekki hægt í öllum málum á meðan við erum með svona stjórnskipan, en í þeim málum sem æskilegt er að séu unnin í þverpólitísk sátt ættum við í miklu meira mæli að vinna að því hér og hafa nefndarstarfið og vinnuna í kringum það opið.