144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[12:20]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir prýðisræðu. Hv. þingmaður kemur oft að hlutum sem vilja gleymast í umræðunni, eru síður ræddir eða eru kannski ekki alveg umfang umræðunnar; 1. gr. hefur til dæmis verið svolítið áberandi í umræðunni hér. En hv. þingmaður ræddi hér aftur um að um afturför væri að ræða með lögin í heild sinni eins og ég skildi það, að verið væri að fara aftur í sama farið svo að ég endurtaki hennar orð; djöfullinn liggur í smáatriðunum, sagði hún, og líkti lagasetningu við pylsugerð. Ég ætla nú ekki að dvelja við það.

Hér er um að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráðið. Ég hef nálgast málið út frá þeim meginmarkmiðum frumvarpsins að auka sveigjanleika í stjórnsýslunni, í því sem snýr að skipulagi og stjórnun mannauðs. Ef við höldum okkur við túlkun hv. þingmanns varðandi afturför þá nefnir hún í því samhengi 6. gr. laga um Stjórnarráð Íslands og það er upphafsgrein í III. kafla sem fjallar um ríkisstjórn og samhæfingu starfa á milli ráðherra o.s.frv. Ég fæ ekki betur séð — af því hv. þingmaður nefndi hrunið og skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, þar sem talað var um skort á formfestu — en að hér sé þvert á móti verið að skýra betur þá lagagrein og auka á formfestu. Getur hv. þingmaður farið yfir það?