144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[12:29]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Þetta er önnur ræða mín um þetta mál og margt hefur verið sagt hér. Ég vil í upphafi ræðunnar geta þess — við höfum talað um farþega með stóru breytingunni, 1. gr., sem er sú að flytja Fiskistofu, við höfum talað um farþega sem eru með í þessu frumvarpi — og leggja áherslu á að það er ekki eins og það hafi farið gersamlega fram hjá okkur í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þó að kannski mætti halda það af umræðunni sem hér hefur orðið og jafnvel af því sem ég sjálf hef sagt hér. Það var vissulega ekki þannig og ég hreyfði strax þeim breytingum sérstaklega sem eru í 6. gr. frumvarpsins um 17. gr. laganna, um að hægt sé að setja upp einhverja sérstaka stjórnsýsluskrifstofu, taka hana út úr aðalskrifstofu ráðuneytis. Ég nefndi það sérstaklega í nefndinni að mér fyndist þetta ruglingslegt og setti það einmitt í samhengi við það sem hefur komið fram í umræðum að annars staðar er verið að gera allt aðra hluti, til dæmis að setja á stofn menntamálastofnun. Þar er verið að færa stjórnsýsluverkefni út úr ráðuneytinu og á síðasta kjörtímabili var mikið gert í því að færa sérstök stjórnsýsluverkefni inn í sérstakar stofnanir.

Ég sagði það á nefndarfundum og segi það hér enn að ég tel að fara þurfi yfir þetta svið allt saman og gera það þannig úr garði að það liggi nokkuð ljóst fyrir hvernig stjórnsýslunni í landinu er háttað. Það er ekki okkar vegna, það er vegna fólksins, fólksins sem þarf að nota stjórnsýsluna. Mér finnst einmitt þetta sem kemur fram í 6. gr. frumvarpsins og líka það, miðað við þær breytingar sem eru að verða til dæmis á þessari menntamálastofnun sem er nú ekki búið að leiða í lög, þó að mér skiljist að hún sé komin í einhverja fúnksjón, þ.e. þessar breytingar bera svolítið keim af því að verið sé að breyta þessu fyrir embættismannakerfið, fyrir ráðuneytin, svo þetta sé þægilegt fyrir ráðuneytin eða ráðherrann og draga megi úr kostnaði, sem alltaf er gott en það má ekki fara heldur út í öfgar. Við megum ekki gleyma því að stjórnsýslan öll er ekki til fyrir embættismennina, hún er ekki til fyrir ráðherrana, hún er ekki til fyrir þingmennina, hún er til fyrir fólkið í landinu og þess vegna þarf að liggja skýrt fyrir hvernig það á að geta notað þessa stjórnsýslu.

Eftir því sem umræðu um frumvarpið vindur fram kemur æ meira í ljós að frumvarpið er allt afturhvarf. Það er afturhvarf til gamalla starfshátta, sem reyndar, því miður, einkennir svolítið það unga fólk sem nú er í forustu fyrir landinu, að í stað þess að koma með nýja og ferska sýn á það hvernig á að stjórna landinu, þá virðist það horfa til baka. Það saknar þess þegar þingið var meira og minna, má ég segja og orða það þannig, undir hælnum á framkvæmdarvaldinu og það tekur til baka, eins og verulega var farið yfir hér í gær, ýmislegt sem reynt var að gera á síðasta kjörtímabili þegar við tölum um sóknaráætlunina til dæmis. Nefnd var hérna í gær sú lýðræðistilraun sem var gerð með stjórnlagaþinginu, sem þeir flokkar náttúrlega sem nú eru hér við stjórn hömuðust gegn eins og mest þeir máttu. En ég vil kalla það eina merkustu lýðræðistilraun sem gerð hefur verið hér á landi og kannski þó víðar væri leitað, þ.e. allt stjórnarskrármálið á síðasta kjörtímabili. Ég vil líka segja, fyrst ég er komin inn á það mál, að ég held að við eigum þar inni mikla fjárfestingu, við eigum þar mikla vinnu sem ég held að komi til með að verða notuð og komi þjóðinni að miklu gagni, vonandi ekki innan of langs tíma, og verið er að vinna að því máli.

Mér finnst það líka merkilegt að í þessari umræðu hafa komið fram svolítið merkilegar setningar. Vald er viðbjóður, sagði einn þingmaður hér. Ég vil ekki segja að vald sé viðbjóður vegna þess að við komumst náttúrlega ekki hjá því að einhver hafi vald, en það skiptir miklu máli að þeir sem fara með vald beri eiginlega óttablandna virðingu fyrir því valdi. Þeir eiga ekki bara að bera virðingu fyrir því, þeir eiga að bera, ég vil segja óttablandna virðingu fyrir því vegna þess að það verður þá til þess að þeir fara kannski vel með valdið. Það skiptir meginmáli að valdhafar fari vel með vald en það er því miður ekki það sem við sjáum hér í dag.

Annar þingmaður sagði að lýðræðið væri lífsstíll og það finnst mér flott setning. Það er einmitt það sem maður hefði kannski óskað að unga fólkið sem fer með stjórn landsins og hefur ekki verið í þeirri stöðu áður, ekkert þeirra, hefði átt að hafa í huga frekar en fara aftur á bak og vera með valdfrekju eins og einhver kallaði það hér í gær.

Mig langar aðeins í lokin að koma inn á umræðuna um siðareglurnar. Ég hef stundum sagt að ekki þurfi að skrifa niður siðareglur, og auðvitað er það í hálfkæringi sagt að ég hef nefnt að siðareglurnar eigi að vera í höfðinu á fólki, þær eigi ekki að vera á blaði. Auðvitað er það í hálfkæringi sagt, en vissulega er nauðsynlegt að skrifa niður siðareglur. En ég held líka að það skipti verulegu máli að við áttum okkur á því að siðareglur eru ekki lög. Þess vegna verður hver og einn að koma að gerð siðareglnanna. Ef svo er ekki, tökum dæmi, nefnt hefur verið hér áður að ekki sé alveg ljóst hvort siðareglur séu í gildi hjá ríkisstjórninni, af því að ljóst er að núverandi ríkisstjórn hefur ekki sett sér siðareglur, og þá hefur spurningin vaknað hvort siðareglur sem síðasta ríkisstjórn setti sér séu í gildi.

Ég tel eiginlega að það megi ekki verða þannig. Ef við þingmenn setjum okkur siðareglur á þessu þingi, á þessu kjörtímabili, þá held ég að hvert þing verði að samþykkja þær siðareglur fyrir sig. Þess vegna held ég að hver ríkisstjórn, þó það séu sömu siðareglur og gamla ríkisstjórnin var með og eru í þinginu sem gamla þingið var með, þá skipti það meginmáli að allir komi að, hver og einn og segi: Já, fyrir mig, ég samþykki þetta. Siðareglur eru ekki lög. Það er kannski einhver hluti siðareglna sem hægt er að færa í lög en svo má líka passa sig á að færa ekki í lög einhverja hluti sem ekki er hægt að staðreyna. Það er mikill munur á lögum og siðareglum. Hver og einn sem ætlar að fara eftir einhverjum siðareglum verður að samþykkja þær sjálfur þó að hann hafi kannski ekki smíðað þær sjálfur.